„Bransadagurinn sjálfur, fólkið og fyrirtækin sem hér eru saman komin, er sönnun þess hvaða kraftur býr í okkar atvinnugrein,“ sagði Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks í ávarpi við upphaf Bransadagsins sem haldinn var í annað sinn í Hörpu í gær, 6. janúar 2025. Að deginum stóðu Félag tæknifólks, Rafmennt og Harpa.

Óhætt er að segja að mikið hafi verið um dýrðir eins og meðfylgjandi myndasafn ber með sér. Að þessu sinni var tæknifólk í forgrunni.

Ríflega 300 manns úr geiranum mættu á Bransadaginn og 21 fyrirlesari hélt erindi. Í þeim hópi voru nokkrir erlendir fyrirlesarar. Fyrirlestrarnir voru afar vel sóttir.

Allnokkur fyrirtæki kynntu á Bransadeginum starfsemi sína og vörur. Aðalbakhjarlar Bransadagsins að þessu sinni voru Exton, Luxor, Attendi og Sýrland.

Markmiðið að fræða

Ingi Bekk verkefnastjóri hjá Rafmennt og Andri Guðmundsson tæknistjóri í Hörpu önnuðust framkvæmd og dagskrárstjórn Bransadagsins. Óhætt er að segja að þeir hafi staðið sig með sóma, rétt eins og í fyrra.

„Andri hafði samband við mig í september 2023 þar sem hann viðraði þá skoðun sína að tæknifólk vantaði sérstakan dag fyrir fagfólk í bransanum; dag þar sem fólk kæmi saman, ætti samtal og fengi fræðslu. Þannig kem ég inn í þetta,“ segir Ingi. Andri bætir við að fræðsla sé meginmarkmiðið með Bransadeginum en einnig sé vilji til að auka nýliðun í greininni. „Ein leiðin til þess er að kynna störfin okkar – svo fólk viti hvað þetta er.“

Andri bendir á að á hverju ári fari fjöldinn allur af íslensku tæknifólki á stórar sýningar og ráðstefnur á erlendri grundu. „Á Bransadeginum flytjum við svona viðburð heim. Umhverfislega er líka betra að flytja örfáa fyrirlesara til Íslands en að senda stóran hluta af bransanum út.“

Kynjahlutföllin að breytast

Í fyrra tóku um 250 manns þátt í Bransadeginum en í ár voru þátttakendur um 330 talsins. Þeir félagar eru afar ánægðir með þann vöxt en nefna að í ár hafi verið lögð áhersla á að jafna hlut kynjanna á meðal fyrirlesara. Þeir benda á að bransinn sé afar karllægur en 86% skráðra þátttakenda að þessu sinni voru karlar. „Þetta er að breytast,“ segir Ingi og nefnir að í fyrra hafi það gerst í fyrsta sinn frá upphafi að kona hafi lýst sýningu á stóra sviði Þjóðleikhússins. „Þetta er að breytast. Það eru fleiri konur og kvárar að bætast í hópinn – og við viljum ýta undir þá breytingu.“

Aðspurðir fara þeir Ingi og Andri að hlæja þegar þeir eru spurðir hvort það sé ekki svolítil vinna, að skipuleggja Bransadaginn. „Ég hef aldrei verið eins þreyttur á ævinni eins og eftir Bransadaginn í fyrra,“ segir Ingi glaðbeittur. „Þetta er mjög mikil vinna – sem hófst í raun strax eftir Bransadaginn í fyrra. En adrenalínið er kannski ekki alveg það sama og í fyrra – þegar maður var að gera þetta í fyrsta sinn,“ viðurkennir hann. Hann nefnir sem dæmi að erlendu fyrirlesararnir að þessu sinni hafi verið bókaðir fyrir sumarleyfi í fyrra.

 

Þekktir erlendir fyrirlesarar

Á meðal þeirra sem héldu fyrirlestra að þessu sinni voru Sam Hunter, sem sviðsstýrði opnunar- og lokahátíð Ólympíuleikanna, Ola Melzig, framleiðslustjóri Eurovision 2024 og Sooner Routhier, einn allra fremsti sviðs- og ljósahönnuður heims. Þeir benda á að Routhier sé ljósahönnuður fyrir Muse, Coldplay og fleiri þekktar hljómsveitir. Melzig hafi stýrt Eurovision um árabil og hafi opnað Eurovision fyrir tæknifólki með afar vinsælum bloggfærslum.

„Hann bloggaði daglega um hvað væri að gerast í undirbúningi fyrir Eurovision. Maður las þetta spjaldanna á milli. Fyrir tæknimann var draumur að komast í svona upplýsingar. Það er frábært að fá þetta fólk til landsins.“ Svo eru hér auðvitað frábærir Íslendingar líka. Nægir þar að nefna goðsögn eins og Gunnar Árnason,“ segir Ingi.

Öryggismálin sett á dagskrá

Einn af síðustu dagskrárliðunum Bransadagsins voru pallborðsumræður um öryggi í bransanum. Í pallborði sátu þingmaðurinn Víðir Reynisson, sviðs- og viðburðarstjórinn Máni Huginsson, Þór Pálsson frá Rafmennt, Ólafur Ástgeirsson frá Iðunni, Axel Pétursson frá Vinnueftirlitinu og Böðvar Tómasson frá ÖRUGG verkfræðistofa. Liðlega 100 manns sátu fundinn þar sem fóru fram góðar umræður um þetta mikilvæga málefni í starfi þessa bransa. Á fundinum var meðal annars rætt um mikilvægi þess að leggja drög að handbók um öryggismál í sviðslistum. Fundurinn samþykkti að hefja undirbúning þessara vinnu en við það tilefni var ákveðið að taka hópmynd af fundargestum. Hún er á meðal þeirra sem finna má í meðfylgjandi myndasafni.

Að formlegri dagskrá lokinni voru fljótandi veigar á boðstólnum, Exton efndi til snúrukeppni og uppistandari fór með gamanmál. Mikil stemmning myndaðist og varði fram undir kvöld.

Félag tæknifólks, fyrir hönd þeirra sem að viðburðinum stóðu, færir þátttakendum, samstarfsaðilum, fyrirlesurum og öðrum sem að deginum komu, bestu þakkir fyrir frábæra upplifun.

Undirbúningur að næsta Bransadegi er þegar hafinn.

Myndir frá deginum.