Kæru félagar,

Ég sendi félagsfólki RSÍ og fjölskyldum, sem og landsmönnum öllum, óskir um gleðilegt nýtt ár og þakka ánægjuleg samskipti á árinu sem nú er liðið.

Nýliðið ár hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt bæði í starfi RSÍ en einnig í samfélaginu. Vextir hafa fylgt himinskautum og sífellt aukin útgjöld heimilanna hafa gert stöðu alls launafólks erfiðari en hún þyrfti að vera. Síendurtekin eldgos á Reykjanesskaganum hafa gert stöðu Grindvíkinga virkilega erfiða. Stríðsátök úti í hinum stóra heimi hafa aukist á árinu og ljóst er að spenna í samskiptum hefur aukist og virðist engan enda ætla að taka.

Á árinu sem er að líða hefur mikil vinna verið lögð í endurnýjun kjarasamninga en viðræðurnar hófust með formlegum hætti í lok árs 2023 en skiluðu að lokum kjarasamningum sem gilda til fjögurra ára. RSÍ gerir hátt í 30 kjarasamninga og því augljóst að þetta ferli tekur mikinn tíma bæði í undirbúningi viðræðna, sjálf kjarasamningagerðin og síðan eftirfylgni í kjölfarið. Það er mjög ánægjulegt að kjarasamningarnir hafa verið samþykktir með miklum meirihluta. Meginstefið er að ná niður vöxtum hér landi og að stuðlað verði að minni verðbólgu.

Nýverið var skrifað undir kjarasamning fyrir félagsfólk í Félagi tæknifólks. Þetta eru mikil tímamót en stefnt hefur verið að þessu um langt skeið og því skiptir það mjög miklu máli að ná þessum áfanga. Fulltrúar Félags tæknifólks hafa varið gríðarlegum tíma í þessa samningagerð og hafa notið aðstoðar starfsfólks RSÍ og Fagfélaganna. Með samningnum er bæði unnið að því að fækka kjarasamningum hjá okkur en á sama tíma verið að tryggja réttindi þessa hóps.

Mesti fjöldi nýsveina í rafiðngreinum á árinu sýnir árangur baráttu okkar hjá RSÍ á síðasta áratug. Við höfum markvisst beitt okkur í að auka aðsókn í iðn- og tækninám, árangur aðgerða verður ekki sýnilegur fyrr en að nokkrum árum liðnum. Nú er nokkuð langt um liðið síðan við hófum að birta sveinalistann hjá okkur á vefsíðu RSÍ og fyrir rúmum tveimur árum keyrðum við á auglýsingaherferð þar sem við vöktum athygli á sveinalistanum. Við höldum áfram vinnu við að þróa sveinalistann til að ná enn betur utan um allt okkar fólk.

Samstarf innan Fagfélaganna jókst ennfrekar á árinu þegar sameiginleg trúnaðarmannaráðstefna var haldin en á ráðstefnuna mættu trúnaðarmenn frá RSÍ, MATVÍS, VM og Byggiðn. RSÍ hefur haldið slíkar ráðstefnur allt frá því í kringum árið 1995. Ráðstefnan hefur verið hornsteinn í starfi okkar enda mikilvægi þess að vera með vel upplýsta trúnaðarmenn er mikið en ekki síður fyrir fulltrúa RSÍ að heyra hvað brennur á okkar fólki á vinnumarkaði. Með eflingu trúnaðarmannakerfis hafa þessar samskiptaleiðir tryggt enn betri þjónustu við félagsfólk okkar. Þess ber þó að geta að þó svo samstarf Fagfélaganna hafi gengið vel á árinu þá fækkar félögum sem taka þátt í því. Stjórn Byggiðnar ákvað í lok árs að segja upp samstarfssamningi og raungerist útganga þeirra um mitt ár 2025. Ég þakka félagsfólki innan Byggiðnar fyrir virkilega ánægjulegt samstarf á liðnum árum og óska þeim alls hins besta.

Á nýju ári munum við leggja enn meiri áherslu á að styrkja samstarf Fagfélaganna enda hefur samstarfið skilað RSÍ, MATVÍS og VM gríðarlegum ávinningi. Frábær þjónusta við félagsfólk þegar fólk þarfnast aðstoðar t.d. vegna veikinda, styrkja, orlofshúsa og kjaramála. Nýtt félagakerfi verður tekið í notkun um áramótin og mun það hafa verulega jákvæð áhrif á aðgengi félagsfólks að þeirri þjónustu sem boðið er upp á.

Vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna hefur sannað gildi sitt en í öllum stærstu málum sem hafa komið upp á íslenskum vinnumarkaði, þar sem brotið hefur verið á starfsfólki eða grunur hefur verið um mansal, hefur eftirlit Fagfélaganna komið að með einum eða öðrum hætti. Þessi staðreynd sýnir og sannar mikilvægi þess að verkalýðsfélögin taki höndum saman og upplýsa um brot á vinnumarkaði. Þess má geta að Fagfélögin eru í samstarfi við Eflingu stéttarfélag hvað varðar vinnustaðaeftirlit.

Hækkun launa 1.1.2025 og breytingar á yfirvinnu 1 & 2:

Laun hækka frá og með 1. janúar 2025 um 23.750 kr eða að lágmarki 3,5%. Lágmarkslaun sveina, meistara og iðnfræðinga hækka misjafnlega mikið eða um 29 þúsund til  32 þúsund, sem jafngildir um 5,1% hækkun.

Frá og með 1. janúar 2025 verður breyting á yfirvinnu 1. Nú fækkar tímum sem heimilt er að greiða yfirvinnu 1 og fer úr 4 klst niður í 3,5 klst á viku umfram fulla dagvinnu, sem er 36 klst virkar vinnustundir í dagvinnu.

Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp þau verkefni sem RSÍ hefur sinnt á liðnu ári en ég læt staðar numið hér. Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að ég var jafnframt kjörinn sem þingmaður á Alþingi okkar Íslendinga. Ég verð því 9. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður. Ég er þakklátur fyrir það traust og það umboð sem þjóðin veitir mér og mun leggja mig allan fram til þess að bæta íslenskt samfélag og láta rödd iðnaðarfólks heyrast á Alþingi.

Að lokum þá sendi ég ykkur öllum hugheilar nýárskveðjur og þakka fyrir gömlu árin.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands