„Draumur minn er brostinn. Ég kom í von um gott kaup en sá draumur er úti. Fjölskyldan mín er ekki glöð og ég er ekki glaður heldur. Og ekki aðeins ég. Vinnufélagar mínir eiga í því sama.“

Þetta segir Sandris Slogis í sjónvarpsþættinum Kveik sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi, þriðjudaginn 24. september. Þar var fjallað um vinnuþrælkun sem viðgengst fyrir tilstilli starfsmannaleiga á byggingamarkaði á Íslandi. Fram kom í þættinum að Sandris, sem er lærður smiður, hafi unnið í átta Evrópulöndum en aldrei upplifað neitt í líkingu við þá meðferð sem hann hefur hlotið á Íslandi.

Í þættinum slóst Kveikur í för með vinnustaðaeftirliti Fagfélaganna og Eflingar. Sýnd voru sláandi dæmi um launaseðil þar sem lítið stóð eftir þegar búið var að draga húsaleigu, leigu á bifreið og ferðakostnað frá launum ónefnd starfsmanns. Úborguð laun voru ríflega 30 þúsund krónur eftir frádrátt. Hrörlegum vistarvörum þessara starfsmanna voru gerð skil í þættinum en veggjalýs og kakkalakkar komu þar við sögu.

Sandri Slogis segist aldrei hafa hlotið viðlíka meðferð og á Íslandi.

„Í fyrsta skipti í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur. Í fyrsta skipti. Ég fæddist í Sovétríkjunum og ég vann í Lettlandi á tíunda áratugnum. En í fyrsta skipti leið mér eins og hundi án heimilis.“ segir Sandris í þættinum um veru sína á Íslandi. Hann vinnur yfirleitt 10 tíma á dag sjö daga vikunnar. Fram kom í máli hans að hann hefur þurft að fá senda peninga frá heimalandinu til að lifa.

Fram kom í þættinum að 19 starfsmannaleigur séu skráðar hér á landi en þeir hafi í júlí haft 584 starfsmenn á skrá. 38% þeirra eru frá Póllandi en margir séu einnig frá Lettlandi (eins og Sandris) og Litháen.

Stjórnvöldum hefur ítrekað verið bent á vandann en þátturinn afhjúpaði að lítið hafi breyst í þessum málaflokki undanfarin ár. Spilaðar voru margar klippur, nýjar og gamlar, af ráðherrum sem sögðust vera að vinna í málunum.

Í þættinum kom meðal annars fram að heimildir væru í lögum til að beita fyrirtæki sektum vegna vinnuþrælkunar en að þeim væri ekki beitt. Fjármagn vantaði til að hægt væri að halda úti eftirliti eða aðilum til að framfylgja lögunum. Lögreglan hefði ekki bolmagn til að sinna málaflokknum.

„Þetta er bara villta vestrið,“ sagði viðmælandi Kveiks í þættinum.

Adam Kári Helgason og Mirabela Blaga, eftirlitsfulltrúar Fagfélaganna og Eflingar, voru á meðal þeirra sem fram komu í þættinum. Þau hafa undanfarið ár heimsótt tugi fyrirtækja og vinnustaða í hverjum mánuði og tekið niður upplýsingar um á annað þúsund erlenda starfsmenn. Eftirlitið hefur átt sinn þátt í að varpa ljósi á alvarleg brot á íslenskum vinnumarkaði – ekki síst á veitingamarkaði – eins og mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarið.

Þátt Kveiks má sjá hér.