Óhætt er að segja að einbeitingin skíni úr andlitum keppenda Íslands á Evrópumótinu í Gdansk í Póllandi. Á Facebook-síðunni Mín framtíð er fylgst náið með gangi mála. Í dag er síðasti keppnisdagur og úrslitin munu því ráðast í 32 keppnisgreinum þegar líður á daginn.

Ellefu keppendur etja þar kappi fyrir Íslands hönd. Þar af eru fjórir keppendur í greinum félagsmanna RSÍ. Hlynur Karlsson úr Tækniskólanum keppir í rafeindavirkjun, Przmyslaw Patryk Slota úr Verkmenntaskóla Austurlands keppir í rafvirkjun, Benedikt Máni Finsson úr Tækniskólanum keppir í iðnaðarstýringum og Olivier Piotr Lis úr Tækniskólanum keppir í graffískri miðlun. Fulltrúar Íslands eiga það sameiginlegt að hafa borið sigur úr býtum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fór fram í Laugardalshöll í mars sl. Um 600 keppendur frá 32 þjóðum munu etja kappi á Euroskills ásamt þjálfurum sínum og fylgdarliði.