Euroskills, Evrópumót iðn-, verk- og tæknigreina fer nú fram í Gdansk í Póllandi. Ellefu keppendur etja þar kappi fyrir Íslands hönd. Þar af eru fjórir keppendur í greinum félagsmanna RSÍ. Hlynur Karlsson úr Tækniskólanum keppir í rafeindavirkjun, Przmyslaw Patryk Slota úr Verkmenntaskóla Austurlands keppir í rafvirkjun, Benedikt Máni Finsson úr Tækniskólanum keppir í iðnaðarstýringum og Olivier Piotr Lis úr Tækniskólanum keppir í graffískri miðlun.

Mótið var sett í gær, 5. september, en það fer að jafnaði fram annað hvert ár. Skemmst er að minnast að á síðasta Evrópumóti, sem fram fór í Búdapest í Ungverjalandi, vann Ísland til silfurverðlauna í rafeindavirkjun. Keppni hefst í dag, 6. september.

Fulltrúar Íslands eiga það sameiginlegt að hafa borið sigur úr býtum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fór fram í Laugardalshöll í mars sl. Um 600 keppendur frá 32 þjóðum munu etja kappi á Euroskills ásamt þjálfurum sínum og fylgdarliði. Keppt verður í 42 greinum og má búast við um 100 þúsund áhorfendum í Gdańsk. Íslensku keppendunum fylgja þjálfarar og fylgdarlið og telur íslenski hópurinn um 40 manns.

„Að taka þátt í Euroskills er mjög mikilvægt fyrir framþróun í iðnaði og ekki síður fyrir iðn -og verknám á Íslandi,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar eða Skills Iceland eins og samtökin heita á alþjóðavettvangi. Euroskills er haldin af WorldSkills Europe sem er hluti af alþjóðlegu WorldSkills hreyfingunni og hefur það að markmiði að kynna iðn- og verknám og möguleika þess. „Samtökin vinna markvisst með stjórnvöldum og iðnaði til að undirbúa samfélagið undir störf framtíðarinnar. Hvert þátttökuland keppist um að þróa færni sína í hverri grein og þátttaka í Euroskills stuðlar einnig að öflugri starfsþróun þeirra iðn- og verkgreinakennara sem taka þátt í þjálfun okkar efnilegu fulltrúa sem keppa fyrir Íslands hönd,“ segir Georg Páll.

Íslensku keppendunum verður fylgt eftir á Euroskills í máli og myndum, en hægt er að fylgjast með á vefsíðunni www.namogstorf.is, Facebook (www.facebook.com/verkidn) og Instagram (www.instagram.com/idngreinarislands).