Orlofshúsasvæðið í Miðdal er 10 km. austur af Laugarvatni. Þar eru góðar gönguleiðir um svæðið og upp með Skillandsárgljúfri. Á svæðinu er ýmislegt til afþreyingar eins og leiktæki og minigolf. Í Miðdal er golfvöllurinn Dalbúi, 9 holu golfvöllur.
Miðdalur er ein af eldri orlofsbyggðum á Íslandi en það voru prentarar sem eignuðust jörðina Miðdal og byggðu upp um og upp úr stríðsárunum. Þegar Grafía gekk inn í RSÍ kom þetta frábæra svæði inn í orlofskerfi sambandsins og eru nú fjögur hús þar til útleigu fyrir félagsfólk, hvert með sinn sjarma. Félagsfólk RSÍ getur einnig byggt upp sín eigin hús en orlofshúsalóðir í landi Miðdals eru eingöngu ætlaðar félagsfólki. Sjá reglur um lóðir og byggingar.
Í Miðdal er glæsilegt tjaldsvæði í fallegu umhverfi. Á svæðinu er gott þjónustuhús með salernis- og sturtuaðstöðu. Góð aðstaða fyrir börn, t.d. leiktæki, ærslabelgur og körfuboltavöllur. Tjaldsvæðið er opnað í lok maí eða byrjun júní og fer þá eftir því hvenær frost fer úr jörðu.


