
Ísland tekur við formennsku í NEF
Rafiðnaðarsamband Íslands tók nýverið við formennsku í NEF, norrænum samtökum rafiðnaðarsambanda. NEF stendur fyrir Nordisk El-federation. Samtökunum tilheyra 140 þúsund rafiðnaðarmenn en félagsfólk innan þessara norrænu samtaka heldur fullum réttindum hvar sem það starfar á Norðurlöndunum.
RSÍ hefur átt aðild að þessum samstarfsvettvangi í áraraðir en stjórn NEF fundar um það bil þrisvar sinnum á ári. Auk þess eru þing haldin annað hvert ár. NEF veitir RSÍ aðgang að fleiri mikilvægum póstum í alþjóðasamstarfi rafiðnaðarfólks, svo sem GPTU, EFBWW og NBTF. Nánar má lesa um þessi mál hér.
Síðasta þing var haldið í Stokkhólmi þann 7.-8. janúar síðastliðinn. Jakob Tryggvason formaður sótti þingið.
Til umfjöllunar á vettvangi sambandsins eru öll þau málefni sem snerta starfsemi sambandanna á hverjum tíma. Kjaramál, menntamál, öryggismál og ákvæðisvinna eru dæmi um umræðuefni undanfarinna funda og ára. NEF starfrækir undirnefndir og skipar þær eftir þörfum. Vinnumarkaðsnefnd hefur verið starfandi um langt skeið auk þess sem menntanefnd hefur fundað með reglubundnum hætti. Öryggismál koma að sjálfsögðu til umræðu en einnig er samstarf á vettvangi lyftuiðnaðar en störf eru líklega betur skilgreind þar ytra en hér heima.
Dagskrá þingsins
Þingið hófst á formlegri opnun og afgreiðslu dagskrár, síðan voru stöðuskýrslur frá rafiðnaðarsamböndunum á Norðurlöndum fluttar auk þess sem fram fóru umræður um helstu verkefnin í samstarfinu; sérstaklega á sviði fræðslu og vinnuverndar.
Gestir frá EFBWW kynntu pólitískar áherslur í Evrópu, meðal annars baráttu gegn félagslegum undirboðum og vinnumarkaðsglæpum. Kynntar voru reglur um vinnustaðaskírteini, áskoranir vegna undirverktöku ræddar sem og opinber innkaup, öryggi og heilsuvernd í rafiðnaði. Rætt var um viðfangsefni vegna loftlagsbreytingar og skorts a fagmenntuðu starfsfólki.
Einnig var á þinginu fjallað um eflingu norræns samstarfs innan byggingageirans og rætt um jafnrétti og aðgerðir til að bæta stöðu kvenna í karllægum greinum, með áherslu á hagnýt samstarfsverkefni og miðlun reynslu milli landa.
Á þinginu var vinnuhópur um vinnuvernd formlega staðfestur sem fastanefnd, og rætt var um að tilnefna fulltrúa í vinnuverndar- og fræðsluhópa. Að lokum fóru fram kosningar þar sem formennska í NEF færðist frá Svíþjóð til Íslands.
Ákveðið var að næsta þing NEF verði haldið í Reykjavík í byrjun árs 2028, auk þess sem stefnt er að auknum samskiptum milli þinga.
