Hlutverk, tilgangur og uppbygging RSÍ
Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) er landssamband stéttarfélaga fólks sem vinnur í raf- og tæknigreinum. Félögin sem mynda RSÍ eru: Félag íslenskra rafvirkja, Félag rafeindavirkja, Rafvirkjafélag Norðurlands, Félag rafiðnaðarmanna á Suðurlandi, Rafiðnaðarfélag Suðurnesja og Félag tæknifólks. Heildarfjöldi félagsmanna er um 6.600 talsins.
Sambandið er starfsgreinasamband sem í eru allir launþegar sem starfa í rafiðnaðargeiranum, hvort sem þau hafa löggilt sveinspróf eða ekki. Allur félagslegur rekstur er í höndum sambandsins ásamt umsjón eigna, sjóða og gerð kjarasamninga.
Starfsemi sambandsins felst í að gæta hagsmuna félagsfólks og fjölskyldna þeirra, bæði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Helstu verkefni er gerð kjarasamninga og er sambandið með 25 kjarasamninga við atvinnurekendur í rafiðnaði, auk nokkurra vinnustaðasamninga. Endurnýjun, viðhald og túlkun kjarasamninga er fyrirferðamikill þáttur í daglegu starfi, auk þess að gæta hagsmuna félagsfólks gagnvart stjórnvöldum, sem felst m.a. í umsögnum um lög og reglugerðir og þátttöku í margskonar nefndum og ráðum aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera.
RSÍ og aðildarfélög eiga í margvíslegu samstarfi á alþjóðlegum vettvangi. Mest eru samskipti við samtök á sviði byggingargeira en á undanförnum árum og áratugum hafa tengsl verið byggð upp við fleiri samtök, á sviði tækni og miðlunar sem og prent- og miðlunargreinum.
- NEF – Norræn samtök Rafiðnaðarsambanda (Nordisk El-federation) Í þessum norrænu samtökum eru 140 þús. rafiðnaðarmenn. Félagsfólk innan norrænu samtakanna halda fullum réttindum hvar sem þau eru á norðurlöndunum. Norrænu rafiðnaðarsamböndin standa að samtarfi við samtök norrænna atvinnurekenda um framhalds- og eftirmenntun í rafiðnaðargeiranum. NEF samstarfið er líklega sá samstarfsvettvangur sem RSÍ hefur átt aðild að lengst. Þegar RSÍ var stofnað sóttu fulltrúar FÍR / RSÍ þekkingu meðal annars til Danmerkur og má þar rekja samræmingu náms í rafiðngreinum. Stjórn NEF fundar um það bil þrisvar sinnum á ári auk þess að þing eru haldin annað hvert ár. Til umfjöllunar eru öll þau málefni sem snerta starfsemi sambandanna á hverjum tíma. Kjaramál, menntamál, öryggismál og ákvæðisvinna eru dæmi um umræðuefni undanfarinna funda og ára. NEF starfrækir undirnefndir og skipar þær eftir þörfum. Vinnumarkaðsnefnd hefur verið starfandi um langt skeið auk þess sem menntanefnd hefur fundað með reglubundnum hætti. Öryggismál koma að sjálfsögðu til umræðu en einnig er samstarf á vettvangi lyftuiðnaðar en störf eru líklega betur skilgreind þar ytra en hér heima.
- NBTF – Norræn samtök í bygginga og tréiðnaði RSÍ hefur tekið þátt í samstarfi NBTF á undanförnum árum en vettvangurinn hefur verið virkur um sameiginleg málefni iðn- og tækni fólks á Norðurlöndum. NBTF var mjög framarlega í ungliðastarfi á undanförnum áratugum en nokkuð hefur dregið úr virkni samtakanna eftir að rekstrarformi þess var breytt. NBTF fundar iðulega í tengslum við fundi evrópsku bygginga- og trjáiðnaðarsamtakanna sem haldnir eru í Brussel og Lúxemborg.
- EBTF – Evrópsk samtök í bygginga- og tréiðnaði EBTF eru samtök á evrópskum vettvangi og fjallar um málefni í bygginga- og tréiðnaði. RSÍ og Byggiðn skiptast á stjórnarsetu í EBTF stjórninni en kjörtímabil eru til fjögurra ára í senn. Samtökin eru mjög virk í réttindamálum þeirra greina sem þau starfa fyrir og fylgjast mjög vel með málum á Evrópuþingi ESB.
- BWI – Alþjóðleg samtök byggingaverkafólks RSÍ er aðili að BWI sem eru alþjóðleg samtök verkafólks í byggingariðnaði. BWI hafa verið mjög virk í baráttunni við félagsleg undirboð og öryggismál verkafólks. RSÍ hefur tekið þátt í vinnustaðaeftirliti meðal annars í Qatar sem skipulagt var af BWI. Öryggismál eru samtökunum efst í huga ásamt því að berjast fyrir réttlátum launakjörum þar sem byggingaframkvæmdir standa yfir í samstarfi við þau verkalýðsfélög sem starfa í viðkomandi löndum.
- UNI Europe og UNI Global UNI Evrópa og Global eru samtök á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi og vinnur að réttindamálum á heimsvísu. Í UNI eru yfir 20 milljón félagar. Deildir innan UNI eru 11 talsins og ná yfir gríðarlegan fjölda starfa. RSÍ og aðildarfélög tengjasteins nokkrum málaflokkum UNI. Þing UNI eru á fjögurra ára fresti. UNI starfrækir ungliðastarf og nýverið var leitað til þess að RSÍ skipaði fulltrúa í stjórn UNI youth, Evrópudeild.
- UNI ICTS RSÍ á aðild að deild UNI ICTS sem er fjarskipta- og tölvuhluti innan UNI á Norðurlöndum. Fulltrúar FÍS á hverjum tíma, ásamt fulltrúa á skrifstofu RSÍ, hafa að mestu sinnt þessum samskiptum. UNI ICTS er hluti af UNI Global.
- UNI MEI – Media entertainment, arts and sports sector and gaming RSÍ á aðild að UNI MEI í gegnum Félag tæknifólks. UNI MEI vinnur með fjölmargar greinar svo sem afþreyingar bransa, lista- og íþróttamál innan UNI. Fulltrúar FTF sinna beinum samskiptum við UNI MEI. Unnið með fjölmörg málefni er snúa að tæknigreinum og störfum tæknifólks. Umfangið er mun viða-meira en heitið gefur til kynna. UNI MEI er hluti af UNI Global.
- UNI Graphical & packaging RSÍ á aðild að UNI Graphical & packaging í gegnum Grafíu. UNI GP fjallar um málefni sem snúa að prentiðnaði, tækniþróun og breytingu starfa í greinunum. UNI GP
er hluti af UNI Global. - IndustriALL RSÍ á aðild að IndustriAll Global en samtökin eru tiltölulega ung og hefur RSÍ aðeins átt aðild að þeim í örfá ár. IndustriAll sameinar um 50 milljón launafólks í fjölmörgum starfsgreinum. Semdæmi má nefna störf í olíu og gas iðnaði, raforkuframleiðslu, vinnslu málma, tölvuiðnaði, framleiðslu byggingarefna og margt fleira. RSÍ tengist IndustriAll fyrst og fremst í gegnum stóriðju og raforkuframleiðslu. Samtökin hafa veitt RSÍ stuðning í kjarabaráttu gegn álverum hér á landi.
- Global Power Trade Unions Global Power Trade Unions (GPTU) eru ekki formleg samtök heldur fyrst og fremst samráðsvettvangur Rafiðnaðarsambanda víðsvegar um heiminn. Fundir eru haldnir árlega þar sem málefni rafiðnaðar eru rædd. Engin alþjóðleg samtök Rafiðnaðarsambanda eru til enda eru almennt ekki sér félög fyrir rafiðngreinar í löndum í kringum okkur, fyrir utan Norðurlöndin. Þessi samráðsvettvangur er því mikilvægur og hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratug.
Félagsgjald RSÍ er 1% af launum. Auk þess greiðir fyrirtæki 1% í sjúkrasjóð, 0,25% í orlofssjóð og 1,1% í eftirmenntunarsjóð (auk 0,1% viðbótargjalds fyrir rafvirkja á almennum vinnumarkaði sem fer í ákvæðisvinnusjóð en er innheimt með eftirmenntunargjaldinu), þessi gjöld eru reiknuð af heildarlaunum. Á vegum sambandsins er rekinn öflugur styrktarsjóður sem hleypur undir bagga með félagsfólki lendi þeir eða fjölskylda þeirra í erfiðleikum vegna veikinda eða slysa. Auk þess greiðir hann útfararkostnað og styrk til eftirlifanda maka og barna undir 18 ára aldri. Sjóðurinn styrkir einnig félagsfólk til líkamsræktar og forvarnastarfs. Sambandið ræður yfir mjög öflugum vinnudeilusjóði. Einnig á sambandið menningarsjóð sem m.a. á það húsnæði sem Rafiðnaðarskólinn er í og styrkir með því starfsemi skólans.
RSÍ á og rekur orlofshús á eftirfarandi stöðum: 2 hús við Svignaskarð, 1 hús í Vatnsfirði, 1 hús í Varmahlíð, 9 íbúðir á Akureyri, 1 hús í Vaglaskógi, 3 hús á Einarsstöðum, 2 hús í Lóni, 3 hús við Kirkjubæjarklaustur, 14 hús við Apavatn, 1 hús í Ölfusborgum, 4 hús í Miðdal og 11 íbúðir í Reykjavík. Þessi hús eru flest með 8 – 10 rúmstæðum og fullkomnum húsbúnaði. Heitir pottar eru fjölmörg húsanna. Auk þess á sambandið 270 fermetra hús við Apavatn sem er vinsælt til fjölskyldu- og vinnustaðamóta. RSÍ á einnig 4 orlofshús í Torreveija á Spáni. Sambandið á tvö hús á Flórída með MATVÍS og eru húsin nýtt sameiginlega. RSÍ er ásamt Félagi bókagerðarmanna aðili að Dalbúa sem á og rekur 9 holu golfvöll í landi Miðdals við Laugarvatn. Félagsfólk fær kort að vellinum gegn vægu gjaldi og einnig fylgir kort orlofshúsum sambandsins í nágrenni við völlinn.
Aðalskrifstofur sambandsins eru við Stórhöfða 31 í Reykjavík auk þess er sambandið með skrifstofur á Selfossi, Keflavík og á Akureyri.
Á heimasíðu RSÍ – rafis.is – er að finna allar upplýsingar um starfsemi sambandsins, alla kjarasamninga, orlofshús og einnig er þar að finna fréttasíðu þar sem birtast nýjar fréttir af helstu atburðum sem snerta rafiðnaðarfólk.
Umfangsmikill þáttur í störfum RSÍ er starfs- og símenntun og hefur sambandið verið brautryðjandi á þessum vettvangi hér landi. Í samvinnu við atvinnurekendur í raf- og tölvuiðnaði er rekinn Menntasjóður rafiðnaðarins. Þessi sjóður fjármagnar rekstur Rafiðnaðarskólans og Fræðsluskrifstofunnar. Rekstur Rafiðnaðarskólans og Fræðsluskrifstofurnnar hefur verið sameinaður undir nafninu Rafmennt, fræðslusetur rafiðnaðarins. Hjá Rafmennt er unnið að þróun grunnnáms rafiðngreina, haldið utan um sveinspróf greinanna, raunfærnimat, rafbókarvef og framleiðslu kennsluefnis í samstarfi við rafiðnaðarkennara auk þess sem þar er staðið fyrir margskonar framhaldsnámi fyrir rafiðnaðarfólk í formi eftimenntunarnámskeiða.
Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarmanna hefur skrifstofu sína að Stórhöfða 27. Skrifstofan sér um námsskrár í rafiðnaðargreinum og námseftirlit. Einnig starfa þar fræðslunefndir í rafiðnaðargreinunum og sveinsprófsnefndir. Skrifstofan sér um prófabanka og sveinspróf í rafiðnaðargreinum sem eru haldin í Rafiðnaðarskólanum. Allri starfsmennta- og fræðslustarfsemi rafiðnaðarmanna er stjórnað af Starfsgreinaráð rafiðngreina, sem í eru fulltrúar frá öllum starfsgreinum í rafgreinum og vinnuveitendur þeirra.
Rafiðnaðarmenn reka Ákvæðisvinnustofu rafiðna sem er með skrifstofu á Stórhöfða 27. Hún hefur umsjón með ákvæðisvinnutaxta og viðhald hans, auk þess gefur hún út taxtann í forriti sem stendur félagsmönnum til boða án endurgjalds.