
Sótti þing GPTU: „Erfiðast að þurfa á velja á milli“
„Það sem var erfiðast var að þurfa að velja á milli þess að sækja þetta mikilvæga þing á Nýja-Sjálandi eða mæta á trúnaðarmannaráðstefnuna á Selfossi, sem var á sama tíma. Í þessari stöðu voru engir góðir kostir,“ segir Jakob Tryggvason, formaður RSÍ.
Jakob fór á dögunum til Nýja Sjálands á þing Global Power Trade Union (GPTU), sem fram fór dagana 10.–13. nóvember í Auckland. Með Jakobi í för var Maríanna Ragna Guðnadóttir, formaður RSÍ-UNG. Með þeim fóru, fyrir hönd FÍR, Andri Haraldsson formaður (og varaformaður RSÍ) og Eiríkur Jónsson ritari.
GPTU er samráðsvettvangur rafiðnaðarsambanda víðs vegar um heiminn. Á þingum þess er fjallað um stöðu starfsfólks, nýja tækni, öryggismál og þróun í greininni. Engin alþjóðleg samtök rafiðnaðarsambanda eru til enda eru almennt ekki sérstök félög fyrir rafiðngreinar í löndum í kringum okkur, fyrir utan Norðurlöndin. Þessi samráðsvettvangur er því mikilvægur og hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratug.
Dagskráin í Auckland
Á fyrsta degi í Auckland var farið yfir málefni á borð við einkavæðingu raforkugeirans á Nýja-Sjálandi, stöðu innviða og netöryggi ásamt skýrslu ungliðahreyfingar GPTU. Þá var haldin kynning frá Electricians Without Borders og umræður fóru fram um endurnýjanlega orku, svo dæmi séu tekin.
Á öðrum degi var til dæmis fjallað um áhrif gervigreindar á störf rafiðnaðarfólks, stöðu stórra lyftufyrirtækja og áskoranir tengdar Úkraínu. Einnig voru rædd lífeyrismál, hættur vegna asbests, réttur til verkfalla, fjölbreytileiki innan stéttarfélaga, staða kvenna innan greinarinnar og framtíðaráskoranir í rafiðngreinum.
Á þriðja degi voru öryggismál í brenndepli og staðlar í iðnnámi, svo það helsta sé nefnt.
Færumst nær hvert öðru
Jakob segir að um afar dýrmætan vettvang sé að ræða, ekki síst fyrir nýjan formann, en Jakob er á sínu fyrsta ári í embætti. Í minnkandi heimi þar sem fyrirtæki bjóði í auknum mæli í verk þvert á landamæri og vinnuafl ferðist óhindrað á milli landa sé afar mikilvægt að vera í góðum tengslum við stéttarfélög í öðrum löndum. „Við erum öll, innan okkar geira, hvar sem þau eru, að glíma við sömu áskoranirnar. Áferðin er kannski ekki alltaf sú sama en í grunninn eru verkefnin sambærileg á milli landa.“
Jakob segir að þessi samkoma sé óformlegri en ýmsar aðrar og þar af leiðandi kjörið tækifæri til að efla tengslin. „Þarna er mikið lagt upp úr tengslamyndun og samskiptum,“ segir hann en Ísland hélt þingið árið 2017.
Mikilvægt að mæta
Jakob segir mikið lagt upp úr því að mæting á þessa viðburði sé góð. Þingið sé oftast haldið í Evrópu en stöku sinnum í Ameríku og örsjaldan í Eyjaálfu. Nýsjálendingar og Ástralar mæti alltaf, sama hvar þingið sé haldið. Því hafi verið mikil pressa á að mætingin til Nýja-Sjálands yrði góð.
Jakob bendir á að samskipti rafiðnaðarsambanda fari oftast fram í gegnum byggingageirann sjálfan og þar sé rafiðnaðurinn yfirleitt aukabúgrein. Á þessum vettvangi sé rafiðnaðurinn þungamiðjan. „Þarna hittast og kynnast fulltrúar rafiðnaðarsambanda og færast þannig nær hver öðrum. Þetta snýst um að deila upplýsingum og geta unnið saman, eftir atvikum, að því að tryggja kjör og réttindi starfsfólks í rafiðnaði.“
Hann segir að félagsskapurinn fari stækkandi, þannig hafi Ítalía síðast bæst við Global Power Trade Union. Jakob nefnir sem dæmi að góð tengsl við ítölsku systursamtökin hefðu komið sér vel við byggingu Kárahnjúkavirkjunar þegar ítalska fyrirtækið Impregilo var þar aðalverktaki. Þar gekk svo sannarlega á ýmsu. Þess má geta að Ítalir verða gestgjafar þingsins á næsta ári.
Jakob segir að það sem einkenni þennan félagsskap sé hversu fjölbreytileg flóra fólks kemur þar saman, fyrir hönd rafiðnaðarsambanda um víða veröld. Þrátt fyrir að viðfangsefnin séu áþekk sé menningin mjög breytileg milli landa. Þannig séu rafiðnaðarsamböndin á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum iðulega að vinna að því að knýja á um lagabreytingar og reglugerðir á sama tíma og í sumum öðrum löndum hópist fólk út á götu og mótmæli af krafti. „Maður hittir þarna mjög ólíka einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að gæta hagsmuna starfsfólks í rafiðnaði. Það er mjög gefandi og gagnlegt.“
Ísland og Nýja-Sjáland eiga margt sameiginlegt
Ferðalögin gerast ekki mikið lengri en frá Íslandi til Nýja-Sjálands. Jakob telur upp að flugferðirnar þrjár á áfangastað hafi verið 16,5 klukkustundir, 6,5 tímar og svo 3,5 tímar. Ferðatíminn hafi í heild verið tæplega tveir sólarhringar, hvora leið. „Ég var að koma í fyrsta sinn til Nýja-Sjálands. Þetta var mjög skemmtilegt og áhugavert. Það er stundum sagt að Íslendingar og Nýsjálendingar séu eins og fjarskyldir frændur. Það er margt til í því,“ segir Jakob sem gafst færi á að skoða sig svolítið um í norðurhluta landsins.
Hann segir að Nýsjálendingar séu, eins og Íslendingar, vanir glímunni við náttúruöflin. Gamlir eldfjallagígar séu víða sýnilegir og misgengi og sprungur vegna jarðhræringa, rétt eins og á Íslandi.
Nýsjálendingar séu mjög stoltir af náttúrunni og passi vel upp á að umgengni við hana sé góð. „Þeir passa til dæmis upp á að innflutt matvæli innihaldi ekki fræ og við þurftum að spreyja sýkladrepandi efni á skóna okkar þegar við heimsóttum eyju í nágrenni Auckland,“ segir hann og bætir við að þessar þjóðir eigi því margt sameiginlegt – þrátt fyrir að landið sé mun grónara og hlýrra en Ísland.
Vor er í lofti í Nýja-Sjálandi en sumarmánuðirnir eru dimmustu mánuðir landsins á Íslandi. Sumarið er því fram undan þar syðra. „Það voru 18 til 19 gráður á mæli og mjög rakt,“ segir Jakob að lokum.
