Eining og góð samvinna á Selfossi

Categories: 2025, Fréttir1 min readPublished On: 21. November 2025Last Updated: 21. November 2025

Fagfélögin og Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) héldu trúnaðarmannaráðstefnu á Selfossi þann 13.–14. nóvember. FFÍ tók þátt í fyrsta sinn en þetta var í annað sinn sem Fagfélögin halda sameiginlega ráðstefnu fyrir trúnaðarmenn. Góð stemning og öflug samvinna einkenndu viðburðinn.

Ráðstefnan hófst á fimmtudegi með erindi frá Benóný Harðarsyni framkvæmdastjóra Fagfélaganna, þar sem hann fór yfir stöðu Fagfélaganna, helstu verkefni og áskoranir á vinnumarkaði. Á eftir fylgdu erindi um Kvennaár 2025, réttindamál kvenna og geðheilbrigði á vinnustöðum, þar sem fjallað var um hvernig opna megi á viðkvæm mál og styrkja forvarnir.

Í hópastarfi komu fram fjölmargar gagnlegar hugmyndir, meðal annars um markvissari fræðslu og betri stuðning við trúnaðarmenn.

Á seinni deginum fjallaði Benóný um Tótal-kerfið, sem Fagfélögin tóku upp á árinu, og fór yfir uppbyggingu og rekstur þess. Einnig voru flutt erindi um stöðu kvenna af erlendum uppruna, lífeyriskerfið, efnahagsmál og launaþróun. Ein málstofa var helguð kjarakönnun RSÍ þar sem trúnaðarmenn ræddu niðurstöður könnunarinnar og þróun kjaramála í mismunandi starfsgreinum. Niðurstöður kjarakönnunar verða birtar eftir helgi.

Ráðstefnan var vel heppnuð og gaf trúnaðarmönnum gott tækifæri til að bera saman bækur, ræða áskoranir og styrkja tengsl milli starfsgreina. Góð og opin umræða einkenndi ráðstefnuna og kom skýrt fram að samstaða og samvinna skipta lykilmáli í þeirri vinnu sem fram undan er.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá ráðstefnunni.