
Nýjar orlofs- og sjúkraíbúðir að Eirhöfða 7
Fagfélögin (RSÍ, VM og MATVÍS) hafa keypt nýjar orlofs- og sjúkraíbúðir að Eirhöfða 7 í Reykjavík. Aðrar íbúðir félaganna á höfuðborgarsvæðinu verða seldar. Heildarfjöldi íbúða hjá öllum félögum eykst við kaupin.
RSÍ hefur átt níu íbúðir en á nú ellefu. Hjá VM fjölgar íbúðum úr fimm í sjö en hjá MATVÍS úr einni í tvær. Fyrstu íbúðirnar verða afhentar á næstu vikum.
Ráðgert er að fyrstu íbúðirnar verði teknar í notkun um mánaðamótin október/nóvember og verður markvisst unnið að því að taka fleiri íbúðir í notkun eftir því sem á veturinn líður.
Markmiðið með kaupunum er að auka hagkvæmni í rekstri sjóðanna. Samlegðaráhrif nást fram þegar allar íbúðirnar eru undir sama þakinu. Þrjú önnur stéttarfélög munu einnig kaupa íbúðir í húsinu.
Tíu íbúðir í langtímaleigu
Auk þessara kaupa hefja félögin tilraunaverkefni þegar kemur að leiguhúsnæði. Félögin kaupa tíu íbúðir sameiginlega og leigja út til félagsfólks. Um verður að ræða leigu án hagnaðarsjónarmiðs, til að styðja við fólk sem býr í ótryggu leiguhúsnæði. Fyrirhugað er að leigan muni aðeins standa undir rekstri og fjármögnun íbúðanna.
Upplýsingar um umsóknir og úthlutunarreglur þessara íbúða verða kynntar um næstu mánaðamót.

