Euroskills-förum boðið til Bessastaða

Categories: 2025, Fréttir2 min readPublished On: 16. September 2025Last Updated: 16. September 2025

„Ég hef lengi haft mikinn áhuga, virðingu og þakklæti til þeirra sem stunda verk- og iðnnám og held að vegur þess þurfi að vera enn meiri í okkar samfélagi.“ Þetta sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, þegar hún ávarpaði keppendur, experta, starfsfólk og aðstandendur keppenda í móttöku á Bessastöðum í gær, 15. september. Forsetinn bauð hópnum heim til að fagna árangri þeirra á Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina, sem fram fór í Herning í Danmörku dagana 9.-13. september.

Ísland sendi 13 keppendur til leiks á Euroskills. Gunnar Guðmundsson, keppandi í iðnaðarrafmagni, vann til bronsverðlauna í sinni keppnisgrein en þetta er í annað sinn sem Ísland kemst á pall á Euroskills. Auk árangurs Gunnars hlutu tveir íslenskir keppendur „Medal of excellence“, viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Það voru Andrés Björgvinsson fyrir matreiðslu og Daniel Francisco Ferreira, sem keppti í húsarafmagni.

Forseti afhenti öllum keppendum og expertum auk liðsstjóra viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna á Euroskills en hún afhenti einnig þeim sem sköruðu fram úr sín verðlaun.

Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, stjórnarmaður í Verkiðn, sem skipuleggur þátttöku Íslands á Euroskills, hélt tölu þar sem hann fór meðal annars yfir hvernig staðið er að skipulagningu og fjármögnun þessa stóra og mikilvæga verkefnis. Þátttaka Íslands á Euroskills væri ekki möguleg án aðkomu stéttarfélaga, menntastofnana, stjórnvalda og annarra bakhjarla verkefnisins.

Eftir athöfnina bauð forsetinn hópnum til veitinga áður en myndataka fór fram á tröppunum á Bessastöðum. Veðrið lék við hópinn á þessum fallega haustdegi.

Hópurinn, sem lenti seint kvöldið áður, fær nú kærkomna hvíld eftir mikla vinnu í Herning. Halla hafði orð á því í ræðu sinni hversu ánægð hún væri með fulltrúa Íslands í þessari keppni. „Ég sé það bara, á því hvernig þið komið fyrir, að þið voruð landi og þjóð til sóma,“ sagði hún meðal annars.

Þess má geta að heimsókninni og árangri Íslands á Euroskills hafa verið gerð skil í flestum veigameiri fjölmiðlum landsins.

Meðfylgjandi eru myndir frá gærdeginum á Bessastöðum.

Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.