
Úrslita beðið á Euroskills
Keppni á Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina, lauk í Herning síðdegis í gær. Keppendur Íslands í hverri grein voru hylltir með fagnaðarlátum þegar keppnistímanum lauk.
Þrír keppnisdagar eru að baki hér í Herning. Óhætt er að segja að taugarnar hafi verið þandar hjá okkar fólki í flestum keppnisgreinum. Spennufallið er mikið. Í flestum greinum var mikil tímapressa aðeins lítill hluti keppenda í sumum greinum náði að ljúka öllu verkefninu sem fyrir lá. Við því mátti búast.
Hildur Magnúsdóttir, sem keppir í málaraiðn, var verðlaunuð í gær fyrir að hafa unnið hraðakeppni innan sinnar greinar. Hún var fyrir vikið útnefnd hraðasti málarinn og fékk afhentan verðlaunagrip fyrir árangur sinn. Við færum Hildi hamingjuóskir með þann árangur.
Expertar voru fram eftir kvöldi í gær að dæma verk nemenda, en Ísland á 14 experta á mótinu, sem staðið hafa í ströngu.
Í dag fer fram verðlaunaafhending og kveðjuhátíð í Boxen í Herning, stórri keppnishöll þar sem danska handknattleikslandsliðið leikur heimaleiki sína. Hátíðin hefst klukkan 18:30 að staðartíma, eða 16:30 að íslenskum tíma. Þar kemur árangur keppenda í ljós. Tilfinningar keppenda eru blendnar en ljóst má vera að allir íslensku keppendurnir skildu allt sitt eftir á gólfinu. Fram á meira er ekki hægt að fara.
Í dag fá keppendur, expertar og aðrir meðlimir íslenska hópsins kærkominn frídag, allt þar til seinnipartinn. Keppnin hefur reynt verulega á einbeitingu, úthald og þrautseigju keppenda.
