Kosið um verkfall á mánudag

Categories: 2025, Fréttir2 min readPublished On: 13. September 2025Last Updated: 13. September 2025

Mánudaginn 15. september 2025, kl. 10:00 hefst atkvæðagreiðsla félagsmanna FÍR um boðun verkfalls í verksmiðju Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Ef verkfallsboðun verður samþykkt hefst verkfallið kl. 00:01 (einni mínútu eftir miðnætti) 25. mars 2026 og verður ótímabundið.

Kosningin verður rafræn og fer fram á eftirfarandi slóð: Kosið um boðun verkfalls hjá Alcoa Fjarðaál 

Félagsmenn skrá sig inn í kosninguna með rafrænum skilríkjum.

Kosningin fer fram á íslensku, ensku og pólsku og fer það eftir tungumálastillingu hvers félagsmanns á „mínum síðum“ á hvaða tungumáli kosningin birtist. Unnt er að breyta tungumálastillingu í hægra horninu uppi (staðsetning getur verið mismunandi eftir tækjum; tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma).

Ef félagsmaður er ekki á kjörskrá en telur sig eiga að vera það, er hægt að kæra sig inn á kjörskrá. Það er gert með því að senda tölvupóst á umsjónarmann kjörskrár, Benóný Harðarson (benony@fagfelogin.is), og láta t.d. launaseðil eða afrit af ráðningarsamningi fylgja með.

Kosningin byggir á eftirfarandi samþykkt trúnaðarráðs FÍR dags. 11.09.2025:

„Fundur trúnaðarráðs FÍR haldinn 10. september 2025 samþykkir að láta fara fram atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls félagsmanna sem starfa í verksmiðju Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Samningaviðræður um framlagðar kröfur vegna endurnýjunar kjarasamnings félagsins við Alcoa Fjarðaál frá 4.2.2021 og sem framlengdur var með breytingum þann 6.3.2023 með gildistíma til 28.2.2025, hafa reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu ríkissáttasemjara. Yfirlýsing um að samninganefnd félagsins telji viðræðurnar árangurslausar var færð til bókar hjá ríkissáttasemjara 6. júní 2025.
Verkfallið taki til félagsmanna FÍR sem starfa í verksmiðju Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði skv. ofangreindum kjarasamningi sem rann út þann 28.2.2025. Verkfallið taki til allra þeirra starfa sem félagsmenn FÍR vinna samkvæmt ofangreindum samningi.
Verkfallið skal vera ótímabundið og hefjast klukkan 00:01 (einni mínútu eftir miðnætti) 25. mars 2026.
Atkvæðagreiðsla um tillögu þessa skal fara fram skv. ákvæðum 2. mgr. 15. greinar laga nr. 80/1938 og hafa félagsmenn FÍR sem vinna samkvæmt ofangreindum samningi atkvæðisrétt um hana.
Verði tillaga þessi um boðun verkfalls samþykkt skal tilkynna ríkissáttasemjara og Alcoa Fjarðaál um boðun þess með lögmætum hætti og í samræmi við 16. gr. laga nr. 80/1938, áður en það hefst.“