
Kjaradeila við Alcoa til sátta
Yfirlýsing frá AFLi Starfsgreinafélagi og Rafiðnaðarsambandi Íslands (RSÍ)
Kjaradeilu AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Sú ákvörðun var tekin í gær, 3. apríl, eftir að ljóst varð að samningsvilji fyrirtækisins reyndist ekki í samræmi við þá alvöru og ábyrgð sem af slíkum viðræðum ætti að stafa.
Kjarasamningar félaganna við Alcoa losnuðu 1. mars síðastliðinn og hafa samningaviðræður staðið yfir án árangurs síðan í desember.
Samninganefndir vonast til að vísun deilunnar til sáttameðferðar skili framgangi í málinu og að Alcoa sýni í framhaldinu aukinn vilja til málefnalegra viðræðna og lausna sem taka mið af því mikla og mikilvæga starfi sem félagsfólk sinnir daglega.
