Félag íslenzkra símamanna fagnaði 110 ára afmæli sínu í gær 27. febrúar en þá voru 110 ár liðin frá stofnun félagsins. Haldið var upp á afmælið í Sjálfstæðissalnum á Parliament hótel við Austurvöll, sem áður hét Nasa.
FÍS samþykkti á dögunum að sameinast Félagi tæknifólks en nýtt nafn á sameinuðu félagi verður tilkynnt áður en langt um líður.
Óhætt er að segja að stemmningin í gærkvöldi hafi verið góð en á meðal gesta voru þátttakendur af aukaþingi RSÍ, sem fram fór í gærdag. Þeirra á meðal var Jakob Tryggvason, nýkjörinn formaður RSÍ. Þess má geta að afmæli FÍS var til umfjöllunar á þinginu en Anna Sigríður Melsted flutti ágrip af sögu félagsins. Að því loknu hrópuðu þingfulltrúar ferfalt húrra fyrir félaginu.
Boðið var upp á glæsilega dagskrá og veitingar bæði á fljótandi formi og föstu í afmælisveislunni í gær. Steiney Skúladóttir stýrði veislunni og fór með gamanmál en það gerði einnig uppistandarinn Jóhann Alfreð, sem lauk vel heppnuðu skemmtiatriði sínu á því að flytja nokkra vel valda pabbabrandara.
Haraldur Örn Sturluson, formaður FÍS, og Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, ávörpuðu samkomuna en í ávarpi sínu hvatti Finnbjörn símamenn til að fylkja sér að baki sameinuðu félagi en standa jafnframt vörð um sögu sína og arfleifð FÍS. Finnbjörn hefur reynslu af því að sameina félög og talaði um að erfiðar tilfinningar væru eðlilegur fylgifiskur þess þegar rótgróin félög rynnu saman. Þær tilfinningar bæri að virða.
Stefán Pálsson sagnfræðingur sagði sögu FÍS á litríkan og skemmtilegan hátt, eins og hans er von og vísa.
Tónlistarflutning fram eftir kvöldi önnuðust GDNR og KK, hvoru tveggja við góðar undirtektir.
Örstutt ágrip af sögu FÍS
Félag íslenskra símamanna á sér merka sögu og var á margan hátt leiðandi, bæði þegar kemur að félagsmálum og kjarabaráttu en FÍS var fyrsta stéttarfélag opinbera starfsmanna á Íslandi.
FÍS var jafnframt fyrsta stéttarfélagið til að reisa sér orlofshús en það var tekið í notkun að Vatnsenda við Elliðavatn í september 1931. Félagið reisti fleiri orlofshús næstu árin og ruddi brautina þegar kemur að uppbyggingu orlofshúsa stéttarfélaga snemma á síðustu öld.
FÍS var einn stofnanda BSRB, árið 1942, og var leiðandi þegar kom að kjarabaráttu opinberra starfsmanna. Til vitnis um það undirbjó félagið ólöglegt verkfall árið 1950 til að knýja á um kjarabætur. Með þeirri aðgerð tókst félaginu að ná fram 17% kauphækkun fyrir alla starfsmenn ríkisins. Samningar náðust rétt áður en símamenn hugðust ganga út af vinnustöðum.
Félagið beitti verkfallsvopninu með reglubundnum hætti á áttunda og níunda áratugnum en árið 1987 fór FÍS í sólarhringsverkfall sem leiddi til einhverra mestu kjarabóta í sögu félagsins.
FÍS sagði sig úr BSRB og gekk í Rafiðnaðarsambandið 22. apríl 1999, þrátt fyrir mótbárur ASÍ og VR.
Við inngöngu félagsins fylgdu orlofseignir á Skógarnesi við Apavatn og í Vaglaskógi. FÍS hefur allar götur síðan komið að uppbyggingu þessara svæða með miklum myndarbrag en svæðin eru eftirsótt af félagsfólki RSÍ.
Það var svo árið 2001 sem fyrsti kjarasamningurinn sem gerður var af Rafiðnaðarsambandinu fyrir hönd FÍS var undirritaður.
Fyrr í vetur var samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu að félagið sameinaðist Félagi tæknifólks. Nýtt nafn á sameinað félag mun líta dagsins ljós innan skamms.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá gærkvöldinu. Smellið á myndirnar til að skoða þær stærri.