Jakob Tryggvason er nýr formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann hlaut 72,9% greiddra atkvæða á aukaþingi RSÍ sem fram fór í Gullhömrum í Grafarholti í dag. Ágúst Hilmarsson, sem einnig var í framboði fékk 25,4% atkvæða til formanns.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem tók sæti á Alþingi á dögunum, hefur því látið af störfum sem formaður. Hann gegndi formennsku í um 14 ár.
Margrét Halldóra Arnarsdóttir hafði gefið kost á sér til formanns en tilkynnt var í upphafi þingsins um að hún hefði dregið framboð sitt til baka.
Jakob hlaut standandi lófaklapp þegar forseti þingsins, Georg Páll Skúlason, las upp úrslitin.
Í stuttu ávarpi þakkaði Jakob þinginu fyrir stuðninginn og hvatti til samstöðu. „Ég heiti því að gera mitt allra besta í starfi sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands,“ sagði Jakob.
Við kjör Jakobs losnaði staða gjaldkera RSÍ. Tveir félagsmenn, þeir Eiríkur Jónsson og Finnur Víkingsson gáfu kost á sér til embættisins.
Svo fór að Finnur hafði betur með 61,4% greiddra atkvæða og er þannig nýr gjaldkerfi sambandsins.
Næsta þing sambandsins er eftir tvö ár.

Finnur Víkingsson, gjaldkeri RSÍ.

Frambjóðendurnir tveir ræða málin í morgun, Ágúst og Jakob.