
Unga fólkið áberandi á þriðja Bransadeginum
„Í ár erum við sérstaklega stolt af því hversu margir nemendur koma á Bransadaginn. Skerpa býður öllum nemendum sem leggja stund á nám við þessar greinar að koma og njóta dagsins og þeirrar dagskrár sem hér er boðið upp á, þeim að kostnaðarlausu,“ segir Ingi Bekk, annar tveggja framkvæmda- og dagskrárstjóra Bransadagsins 2026. Ingi er verkefnastjóri hjá Rafmennt en þeir Andri Guðmundsson starfsmaður Hörpu eru framkvæmdastjórar Bransadagsins.
Sjá fleiri myndir frá Bransadeginum hér

Matthew Griffin á Bransadeginum 2026. Myndir: Skerpa/Sigtryggur Ari
Bransadagurinn var settur um klukkan níu í morgun, þriðjudaginn 13. janúar. Um 30 erindi eru á dagskrá auk þess sem bakhjarlar viðburðarins og stórir aðilar í tæknisenunni á Íslandi eru með glæsilega bása þar sem starfsemi þeirra er kynnt.
Þetta er í þriðja sinn sem Bransadagurinn er haldinn en Ingi er ánægður með þann náttúrulega og góða stíganda sem verið hefur ár frá ári. Hann á von á því að um 350 manns sæki viðburðinn, sem eru um 100 fleiri en í fyrra. „Við erum með frábæra dagskrá í ár. Fram að þessu hefur áherslan verið á sviðstækni, hljóð og lýsingu en núna förum við meira í áttina að kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum,“ segir Ingi.
Þekktir erlendir og innlendir fyrirlesarar
Allnokkrir erlendir fyrirlesarar eru á meðal þeirra sem flytja erindi á Bransadeginum. Nægir þar að nefna framtíðarfræðinginn margverðlaunaða Matthew Griffin, sem ræðir meðal annars áskoranir sem tengjast gervigreind, og Gary Beestone, sem á framleiðslufyrirtæki sem meðal annars hefur tekist á við þá áskorun að breyta Stranger Things í leiksýningu fyrir West End og Broadway. Sjón er sögu ríkari.
Eyþór Árnason og Ragnar Bragason eru í hópi þeirra Íslendinga sem eru með erindi á Bransadeginum að þessu sinni. Einnig fer fram pallborð um framtíð kvikmyndanáms á Íslandi. Ingi segir að nú þegar Rafmennt hefur tekið við rekstri Kvikmyndaskólans hafi þótt tilefni til að ná fólki saman úr öllum helstu skólunum sem kenna greinar sem sinna kvikmyndageiranum og ræða áskoranir geirans og hvert beri að stefna.

Ingi Bekk framkvæmdastjóri Bransadagsins.
Öflugir bakhjarlar
Skerpa – félag tæknifólks, Rafmennt og Harpa standa að baki skipulagningu, framkvæmd og fjármögnun Bransadagsins. Einnig koma stór fyrirtæki í tæknigeiranum að deginum sem fjárhagslegir bakhjarlar. Ingi bendir á að dagurinn gæti ekki orðið að veruleika nema fyrir aðkomu þessara stóru styrktaraðila. Sumir þeirra hafa verið með frá upphafi. Að þessu sinni eru stóru bakhjarlarnir; Exton, Luxor, Atendi, Ofar og Sýrland. Aðstandendurnir eru jafnframt með bása til kynningar á starfsemi sinni. Einnig má nefna að Sonic og Giggó kynna starfsemi sína á viðburðinum.
Ingi, sem starfar sem verkefnastjóri hjá Rafmennt, leggur eins og Andri mikla vinnu í undirbúninginn, enda er í mörg horn að líta. Hann bendir á að Harpa gefi rýmið sem Bransadagurinn fer fram í en leggi einnig til fjármagn. „Og svo er það Skerpa – félag tæknifólks, sem kemur með mikla aðstoð og fjármagn til Bransadagsins. Þar kemur líka þessi faglega tenging, sem er svo mikilvæg. Þeir sem að þessu standa koma að þessu stóra verkefni með mismunandi hætti en saman skapa þau þessa öflugu heild sem þú sérð hér í dag.“
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru þegar kemur að dagskrá og framkvæmd Bransadagsins. Ingi er mjög ánægður með afraksturinn. „Eftir hvern Bransadag þurfum við að skoða hvað við gerðum og velta fyrir okkur hvert við viljum stefna til frambúðar; hvort við viljum víkka sjónardeildarhringinn og taka inn fleiri tengdar greinar eða halda þessu með svipuðu sniði. En eitt er víst, Bransadagurinn er ekki að fara neitt.“
