Matthew Griffin um framtíðina: „Þú verður að læra hratt“

Categories: 2026, Fréttir4 min readPublished On: 13. January 2026Last Updated: 19. January 2026

„Reyndu að horfa eins mikið inn í framtíðina og þú getur en einbeittu þér að því að læra hratt og tileinka þér nýja tækni. Það er allt og sumt,“ segir framtíðarfræðingurinn Matthew Griffin í samtali við Skerpu – félag tæknifólks.

Matthew var á meðal fyrirlesara á Bransadeginum sem fram fór í Hörpu 13. janúar 2026. Hann titlar sig framtíðarfræðing (e. futurist) og er alþjóðlegur sérfræðingur í nýsköpun, breytingastjórnun, geopólítík, forystu og tækni. NASA hefur lýst honum sem „lifandi alfræðiorðabók um framtíðina“. Hann er metsöluhöfundur Codex of the Future bókaflokksins og stofnandi og aðalframtíðarfræðingur 311 Institute, sem er alþjóðleg ráðgjafastofa sem starfar að mótun næstu 50 ára í atvinnulífi og samfélagi á sviði framtíðar- og djúpframtíðargreiningar með ríkisstjórnum, þjóðhöfðingjum, alþjóðastofnunum og fjölþjóðlegum fyrirtækjum. Matthew er eftirsóttur fyrirlesari, kennari og leiðbeinandi með yfir eina milljón fylgjenda á samfélagsmiðlum. Hann starfar náið með heimsleiðtogum og stofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar og World Economic Forum.

Matthew Griffin í Hörpu í dag. Mynd: Skerpa/Sigtryggur Ari

Fjölmargir gestir Bransadagsins fylgdust með erindi Matthews, þar sem hann ræddi meðal annars stöðu fyrirtækja í framleiðslugreinum, áskoranir framtíðarinnar og hvað fólk sem starfar í þessum greinum þarf að hafa í huga á tímum gervigreindar. Skerpa tók Matthew tali strax að fyrirlestrinum loknum.

Matthew færði rök fyrir því í erindi sínu að helsta áskorunin í dag væri ekki framleiðsla afþreyingarefnis heldur sjálf dreifingin. Hann benti á að þótt framleiðsla efnis og skipulagning viðburða væri á margan hátt orðin auðveldari í framkvæmd væri það ekki rétti mælikvarðinn á það hvort verkefnið heppnaðist vel. „Ef enginn sér það eða ef enginn mætir, þá hefur það ekki heppnast,“ segir Matthew.

Hann segir að þetta eigi jafnt við um sjónvarp, fjölmiðla og viðburðahald. Dreifing efnisins er það sem mestu máli skiptir þegar samkeppni er annars vegar. „Þegar við hugsum til dæmis um sjónvarp eða fjölmiðla almennt, þá er dreifingin í auknum mæli stærsta hindrunin,“ segir hann. Aðgangur að áhorfendum ráði úrslitum um hvernig til tekst. Aðgangur að alþjóðlegum áhorfendahópi skýri hvers vegna baráttan hjá stórum alþjóðlegum miðlafyrirtækjum snúist sífellt meira um dreifileiðir en efnið sjálft.

Að fóta sig á tímum gervigreindar

Matthew fjallaði í erindi sínu um áhrif gervigreindar á störf og starfshætti og segir umræðuna oft of einfaldaða. „Almenna viðhorfið er að gervigreind muni leysa þig af hólmi einn daginn,“ segir hann, en bætir við að raunveruleikinn sé flóknari. „Gervigreindin sjálfvirknivæðir bara ákveðin verkefni sem þú sinnir,“ segir Matthew. Hann telur að fólk sem stendur í stað og aðlagar sig ekki nýrri tækni muni finna fyrir breytingunum en aðrir geti styrkt stöðu sína.

Að hans mati snýst þetta fyrst og fremst um að skilja hvert þróunin stefnir og bregðast við hratt. Mikilvægt sé að vera tilbúinn að læra hratt. Hann ráðleggur fólki að reyna að sjá nokkur ár fram í tímann og leggja mat á hvaða færni verði aukin þörf fyrir – og hvaða tækni sé á undanhaldi. „Ef þú getur séð hvert greinin er að stefna hverju sinni, þá átt þú að stefna þangað. Hættu að gera það sem er á undanhaldi,“ segir Matthew en í erindi sínu benti hann fólki á að fylgjast vel með því hvert fjármagnið streymir hverju sinni. Mikilvægt sé að elta fjármagnið – elta peningana.

Frá Bransadeginum í dag, 13. janúar 2026.

Eflaust eru margir í þeirri stöðu að eiga erfitt með að fylgjast með allri þeirri nýju gervigreindartækni sem kemur fram á sjónarsviðið. Hvernig er best að fóta sig í heimi gervigreindarinnar? „Það sem er mikilvægast er að setja niður fyrir sig hvað raunverulega skiptir máli í því sem maður gerir.“ Hann segir of algengt að fólk í tæknigeiranum skilgreini færni sína út frá þeim verkfærum sem það kann á, frekar en tilgangi vinnunnar. „Í raun er tilgangur ljósatæknis að hjálpa til við að skapa áhrif og upplifun,“ segir hann til dæmis.

Hann leggur áherslu á að fólk spyrji sig ekki aðeins hvað það geri, heldur hvers vegna. „Hvað skiptir þig raunverulega máli og af hverju? Og hvað skiptir viðskiptavini þína raunverulega máli? Og af hverju?“ segir Matthew til áhersluauka. Að hans mati er það þessi skilningur, ásamt hæfni til að aðlagast og læra hratt, sem mun ráða úrslitum um stöðu fólks í skapandi og tæknilegum greinum á komandi árum.