
Yfirlýsing vegna húsnæðispakka
Yfirlýsing Fagfélaganna um húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin kynnti í vikunni svonefndan fyrsta húsnæðispakka með ýmsum fyrirheitum um breytingar á húsnæðismarkaði. Fagfélögin fagna því að stjórnvöld viðurkenni að staðan á húsnæðismarkaði sé óásættanleg, en telja að kynningin hafi vakið fleiri spurningar en svör.
Það er óljóst hvaða raunverulegu aðgerðir felast í þessum tillögum, hverjir eiga að njóta þeirra og hvernig tryggt verður að þær skili árangri fyrir vinnandi fólk.
Lykilspurningum þarf að svara án tafar:
- Ætla stjórnvöld að draga úr eftirliti með húsbyggingum, eins og lesa má úr áformum um að færa byggingareftirlit frá sveitarfélögum til skoðunarstofa? Ef svo er, er ekki hætta á að gæði bygginga skerðist og öryggi fólks þannig stefnt í hættu?
- Verður heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán framlengd fyrir alla, eða missa þeir sem nýttu hana frá upphafi rétt sinn?
- Hvernig hyggst ríkisstjórnin í raun draga úr vægi verðtryggingar, og hvaða áhrif mun það hafa á núverandi lántaka?
Að mati Fagfélaganna ber margt í áætlunum ríkisstjórnarinnar með sér að dregið verði úr stuðningi við millitekjuhópana í samfélaginu – hópa sem þegar bera þunga skatt- og vaxtabyrði. Þetta bætist við fyrri hugmyndir stjórnvalda um að hætta samsköttun hjóna milli þrepa og hækkun gjaldskráa sveitarfélaga á fasteigna-, sorp-, vatns- og holræsagjöldum.
Ef áframhald verður á þessari stefnu mun sá hópur sem stendur undir meginstoðum velferðarkerfisins dragast saman eða hverfa. Það verður samfélaginu dýrkeypt.
Fagfélögin minna á að launafólk hefur staðið við sitt. Fagfélögin, eins og önnur samtök launafólks, sömdu um hóflegar launahækkanir til að styðja við stöðugleika og lækkun vaxta. Á sama tíma hafa bankar aukið eiginfjárkröfur sínar, vaxtamunur þeirra hækkað og matvörukeðjur hagnast á verðbólgunni. Það gengur einfaldlega ekki upp að vinnandi fólk axli ábyrgð á stöðugleika meðan fjármálakerfið og stórfyrirtækin græða á ástandinu.
Vilji ríkisstjórnarinnar til að bæta stöðu fólks á húsnæðismarkaði kann að vera góður – en viljinn einn dugar ekki. Húsnæðismál leysast ekki með yfirlýsingum. Nauðsynlegt er að útfæra aðgerðir sem raunverulega bæta húsnæðiskjör almennings og auka aðgengi launafólks að öruggu húsnæði á sanngjörnu verði.
Fagfélögin skora á ríkisstjórnina að kalla verkalýðshreyfinguna til samtals um húsnæðis- og efnahagsmál. Það er óásættanlegt að teknar séu ákvarðanir sem varða kjör og kaupmátt vinnandi fólks án raunverulegs samráðs við stéttarfélögin.
Við munum ekki una því að samið sé um stöðugleika á forsendum sem aðeins gilda fyrir vinnandi almenning en ekki fyrir þá sem mestan hagnað hafa af íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld verða að standa við loforð sín og sýna í verki að þau vinna fyrir fólk – ekki fjármagnseigendur.
