
Opið fyrir umsóknir um leiguíbúðir
Nýstofnað leigufélag Fagfélaganna hefur opnað fyrir umsóknir um 10 íbúðir í langtímaleigu fyrir félagsfólk RSÍ, VM og MATVÍS. Íbúðirnar eru í nýju og glæsilegu fjölbýlishúsi við Eirhöfða 7 í Reykjavík.
Dregið verður úr öllum gildum umsóknum en skilyrði fyrir gildri umsókn er meðal annars að umsækjandi sé greiðandi félagi og eigi ekki húsnæði fyrir.
Umsóknarfrestur þeirra íbúða sem fyrstar verða afhentar er til og með sunnudeginum 2. nóvember.
MATVÍS hefur að þessu sinni tvær íbúðir til úthlutunar, VM þrjár en RSÍ fimm. Stefnt er að því að afhenda íbúðirnar þann 1. desember næstkomandi. Hér má sjá myndir og kynningu á Eirhöfða 7.
Leiguverð
Íbúðirnar eru í þremur mismunandi stærðum: ýmist með einu, tveimur, þremur eða fjórum svefnherbergjum (Sjá nánari lýsingu neðst í þessari grein). Nákvæmt leiguverð mun liggja fyrir við gerð ótímabundins leigusamnings. Athugið að leiguverð inniheldur ekki mánaðarlegar greiðslur til rekstrarfélags leigjenda, sem mun annast rekstur og þrif á sameign. Leiguverð getur verið ögn breytilegt eftir íbúðum.
- Mánaðarleiga á 2ja herbergja íbúð er á bilinu 231.000 – 243.000 – innifalið er net og hússjóður.
- Mánaðarleiga á 3ja herbergja íbúð er á bilinu 293.000 – 305.000 – innifalið er net og hússjóður.
- Mánaðarleiga á 4ja herbergja íbúð er á bilinu 329.000 – 345.000 – innifalið er net og hússjóður.
Að auki greiða leigjendur árlegt félagsgjald til leigufélagsins, 2.900 krónur. Gjaldið er innheimt til að standa straum af kostnaði í tengslum við skráningu á biðlista. Staðfesta þarf skráningu á biðlista með greiðslu á 12 mánaða fresti.
Staðfestingargjald og tryggingafé
Staðfestingargjald vegna úthlutunar er 50.000 kr. Gjaldið skal greitt innan sjö daga frá úthlutun og er óafturkræft ef umsækjandi hættir við en gengur annars upp í tryggingarféð.
Samhliða undirritun leigusamnings þarf leigutaki að standa skil á tryggingarfé sem er ígildi þriggja mánaða leigu. Tryggingarféð stendur til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi, þ.e. fyrir leigugreiðslum, kostnaði sem fellur til við skil á íbúð og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi kann að bera ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga. Leigutaki getur einnig valið að kaupa tryggingu í gegnum viðurkenndan aðila. Trygging þarf að liggja fyrir við undirritun leigusamnings. Tryggingarfé skal skilað í lok leigutíma ef engin athugasemd er gerð við skilin.
Skilyrði úthlutunar
Fimm megin skilyrði eru fyrir því að fá úthlutaða íbúð sem losnar, þegar viðkomandi er efstur á biðlista:
- Umsækjandi skal hafa verið fullgildur félagi í Fagfélögunum (RSÍ, MATVÍS eða VM) í a.m.k. 24 mánuði, litið til síðustu 36 mánaði við úthlutun.
- Umsækjandi skal ekki hafa átt fasteign s.l. fimm ár við úthlutun.
- Umsækjandi skal hafa náð 21. árs aldri við úthlutun (en má þó skrá sig á biðlista 18 ára).
- Umsækjandi skal hafa skráð upplýsingar með réttum hætti.
- Umsækjandi getur eingöngu fengið íbúð sem samræmist fjölskyldustærð.
SÆKJA UM ÍBÚÐ HÉR
Tveggja herbergja íbúðir
Fjöldi svefnherbergja: 1
Stærð íbúða: 70-70,8 fm
2ja herbergja íbúðirnar eru sambærilegar að skipulagi, hlýlegt heimili með sérsmíðuðum Voké-III innréttingum, flísalögðu anddyri og baðherbergi. Miele eldhústæki fylgja (ofn, span-helluborð). GROHE tæki eru á baði og í eldhúsi. Stílhrein hönnun og vönduð gæði. Íbúðin er með vélrænni loftræstingu. Notaleg tveggja herbergja íbúð.
Þriggja herbergja íbúðir
Fjöldi svefnherbergja: 2
Stærð íbúða: 106-108 fm
3ja herbergja íbúðirnar eru sambærilegar að skipulagi. Hlýlegt heimili með sérsmíðuðum Voké-III innréttingum, flísalögðu anddyri og baðherbergi. Miele eldhústæki fylgja (ofn, span-helluborð). GROHE tæki eru á baði og í eldhúsi. Stílhrein hönnun og vönduð gæði. Íbúðin er með vélrænni loftræstingu. Frábær 3ja herbergja íbúð með miklu alrými. Útsýni í vestur til borgarinnar.
Fjögurra herbergja íbúðir
Fjöldi svefnherbergja: 3
Stærð íbúða: 141-145 fm
4ja herbergja íbúðirnar eru sambærilegar að skipulagi. Hlýlegt heimili með sérsmíðuðum Voké-III innréttingum, flísalögðu anddyri og baðherbergi. Miele eldhústæki fylgja (ofn, span-helluborð). GROHE tæki eru á baði og í eldhúsi. Stílhrein hönnun og vönduð gæði. Íbúðin er með vélrænni loftræstingu. Frábær 3ja herbergja íbúð með miklu alrými. Útsýni í vestur til borgarinnar.

