Átta fyrstu íbúðirnar afhentar

Categories: 2025, Fréttir1 min readPublished On: 4. October 2025Last Updated: 4. October 2025

Fagfélögin fengu á fimmtudag átta fyrstu íbúðirnar afhentar í nýju fjölbýlishúsi á Eirhöfða 7 í Reykjavík. Eins og hér var greint frá á dögunum hafa VM, RSÍ og MATVÍS keypt nýjar orlofs- og sjúkraíbúðir að Eirhöfða. Aðrar íbúðir félaganna á höfuðborgarsvæðinu hafa verið seldar eða eru í söluferli. Í tilfelli RSÍ fjölgar íbúðum í Reykjavík úr níu í ellefu.

Íbúðirnar voru afhentar án gólfefna en vinna við gólfin hefst í komandi viku. Einnig á eftir að kaupa húsgögn og -búnað. Þá vinna verktakar hörðum höndum að frágangi í sameign og á lóð fjölbýlishússins.

Allt í kring eru fjölbýlishús í hraðri uppbyggingu, eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.

Ráðgert er að fyrstu íbúðirnar verði teknar í notkun um mánaðamótin október/nóvember og verður markvisst unnið að því að taka fleiri íbúðir í notkun eftir því sem á veturinn líður.

Markmiðið með kaupunum er að auka hagkvæmni í rekstri sjóðanna. Samlegðaráhrif nást fram þegar allar íbúðirnar eru undir sama þakinu. Þrjú önnur stéttarfélög munu einnig kaupa íbúðir í húsinu.

Það voru Jakob Tryggvason formaður RSÍ, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson formaður MATVÍS, og Guðjón Heiðar Sigurðsson, umsjónarmaður orlofseigna Fagfélaganna, sem tóku við lyklunum að þessum fyrstu íbúðum á fimmtudag. Það var Eyjólfur Guðgeirsson, verkefnastjóri hjá Umbra, sem afhenti lyklana.