
„Þetta snýst um sýnileika og stolt“
„Mér líst bara ótrúlega vel á þetta. Þetta er rosalega stór keppni og flottur viðburður,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans. Hildur, ásamt fríðu föruneyti úr skólanum fylgdist með Euroskills í Herning í vikunni. Með henni í för voru stjórnendur deilda sem eiga nemendur í keppendahópi Íslands – og rúmlega það.
„Ég er að koma í annað sinn á Euroskills en ég var líka í Gdansk,“ segir Hildur en sex af íslensku keppendunum þrettán lærðu eða eru að læra í Tækniskólanum. „Við höfum fylgst vel með þessum nemendum. Það er ótrúlega gaman að fá tækifæri til að koma út og fylgja þeim eftir hingað ú.“
Hildur bendir á expertar og keppendur í greinum sem Íslendingar hafi ekki keppt í áður þurfi að læra hratt. Þeir ryðji brautina fyrir komandi keppendur í þeim greinum. „Þetta getur alveg verið brekka, að demba sér út í, en ég tek eftir því að hér er góður andi yfir öllu og allir glaðir. Mér skilst að keppendum okkar gangi vel,“ bætir hún við.
Hún segir að keppendurnir séu fulltrúar ansi margra nemenda og sveina úr þessum sömu iðngreinum. Aðeins einn verði fyrir valinu. „Við eigum fullt af efnilegu fólki í þessum greinum. Sá sem keppir hér er fulltrúi greinarinnar og stendur fyrir allt það sem vel er gert. „Þetta snýst um sýnileika og stolt,“ segir hún.
Hildur vill sjá að þátttökugreinum Íslands haldi áfram að fjölga og að leiðir verði fundnar til að fámennari greinar geti sent fulltrúa sína til keppni. „Þetta snýst auðvitað hvoru tveggja um fjárhagslegan styrk og áhuga hjá viðkomandi fagfélagi. Áhuginn er alls staðar fyrir hendi en fjárhagslegt bolmagn er misjafnlega mikið. Ég horfi t.d. á fötin, flísalagnir og fleiri greinar sem gaman væri að taka þátt í. Það er jafnframt gaman að sjá að við erum að keppa í fyrsta sinn í málun og bifvélavirkjun,“ segir Hildur að lokum.
Á myndinni eru frá vinstri: Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans, Þórdís Guðmundsdóttir náms- og starfsráðgjafi, Guðmundur Ragnarsson expert í málmsuðu og suðukennari, Guðrún Ýrr Tómasdóttir, skólastjóri Raftækniskóolans og Guðrún Randalín Lárusdóttir aðstoðarskóolameistari Tækniskólans.
