Expertarnir – fólkið á bakvið tjöldin

Categories: 2025, Fréttir6 min readPublished On: 12. September 2025Last Updated: 12. September 2025

Þrettán íslenskir keppendur taka þátt í Euroskills, sem stendur nú yfir í Herning í Danmörku. Þeim til halds og trausts eru fjórtán þjálfarar, sem stýrt hafa undirbúningi þátttakenda. Þeir kallast expertar en þeir hafa einnig það hlutverk að dæma á mótinu. Ábyrgð þeirra er því mikil. Segja á að expertarnir séu fólkið á bak við tjöldin. Hér eru þrír þeirra teknir tali:

„Ég má ekkert hjálpa henni“

„Undirbúningurinn var þónokkuð mikill,“ segir Hrannar Freyr Gíslason, expert í húsasmíði, á Euroskills. Hrannar Freyr er þjálfari Freyju Lubinu Friðriksdóttur, sem keppir í húsasmíði á mótinu. Hann er kennari við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og var þar kennari Freyju. „Ég kem í raun inn í þetta sem kennarinn hennar. Þannig byrjaði þetta,“ útskýrir Hrannar.

Freyja og Hrannar hafa verið á æfingum tvisvar í viku síðan í mars eða apríl að sögn Hrannars. Síðustu vikurnar fyrir keppnina var enn meiri kraftur settur í æfingar. „Við tókum nokkrar þriggja daga tarnir jafnvel, þar sem hún byggði hús sem er svipað og það verkefni sem hún fær hér.“

Þegar á hólminn var komið hafði verið gerð 30% breyting á þeim teikningum sem áður höfðu verið kynntar. Hrannar segir ljóst að verkefnið sé fyrir vikið töluvert þyngra. „Við erum ekkert alveg á besta stað með það akkúrat núna en þetta mun hafast,“ segir Hrannar en viðtalið var tekið á öðrum keppnisdegi.

Expertar mega lítið hafa samskipti við keppendur sína á meðan keppninni stendur. „Ég má tala við hana í kaffitímum og matarhléum en við getum ekki skoðað saman teikningar eða neitt. Ég má ekkert hjálpa henni á meðan keppni stendur. Okkar samskipti snúast svolítið um að tala okkur niður á leiðir til að einfalda hlutina sem við náum ekki að gera – jafnvel stytta okkur leiðir til að komast áfram með verkefnið og ná að klára,“ útskýrir hann.

Hlutverk experta er einni að dæma verk annarra keppenda. „Við erum þannig líka aðeins slitnir úr því hlutverki að vera að fylgjast með okkar keppendum.“ Aðspurður segir hann töluverða ábyrgð felast í dómarahlutverkinu. „Við fáum leiðbeiningar en svo þarf maður einnig að fylgja sinni sannfæringu og gæta þess að vera samkvæmur sjálfum sér.“

„Þetta getur orðið svolítið yfirþyrmandi“

Maríanna Ragna Guðnadóttir er expert í húsarafmagni og þjálfar Daníel Fransisco Ferreira, keppanda í húsarafmagni. Hún sótti sér reynslu með því að fara án keppanda á World Skills í Lyon í fyrra. „Ég fékk þarf að taka fullan þátt og dæma. Ég vildi vita hvað ég væri að koma mér út í,“ segir hún.

Maríanna segir það öðruvísi upplifun að vera expert með keppanda með sér. „Maður finnur að það er meiri press og meira í húfi.“ Hún má ekki, frekar en aðrir expertar, hjálpa sínum nemanda – nema að mjög litlu leyti. „Við megum fara saman í hádegismat og ég má vera aðeins stuðningur í pásum. En til dæmis í dag, þegar hann er að forrita, má ég ekkert tala við hann,“ útskýrir hún.

Færni keppenda í húsarafmagni á Euroskills í ár er mjög mikil að sögn Maríönnu. „Standardinn hér er mjög hár og margir virkilega sterkir keppendur. Það sem mér finnst gaman að sjá með Daníel er hvað hann er í góðu jafnvægi. Hann er mjög einbeittur þrátt fyrir að verkefnið sé krefjandi. Það er ekki bara líkamlega krefjandi heldur líka andlega. Þetta getur orðið svolítið yfirþyrmandi. Um leið og einbeiting fer þá verður þetta mjög þungt. Hann hefur staðið sig afar vel,“ segir Maríanna.

Þegar viðtalið var tekið við Maríönnu var Daníel að sýna dómurum fram á að básinn væri í lagi svo hann geti fengið á hann straum. „Hann er á góðum stað. Markmiðið okkar var að komast í forritunina því þar er hann mjög sterkur,“ segir Maríanna sem bætir við að seinniparturinn á degi tvö hafi verið alveg ótrúlegur. „Hann fór í einhvern ham síðustu tvo tímana þannig að hann bara hálftíma eða klukkutíma í dag til að klára básinn. Svo fer hann bara í að forrita.

Hún segir það krefjandi að mega ekki hjálpa sínum nemanda – og þurfa að fylgjast með úr fjarlægð. „Sérstaklega þegar þú sérð að hann er aðeins að ströggla. Þá langar mann að vera mjúkur og blíður en það þýðir ekkert annað en að halda áfram með fulla einbeitingu.“

 

„Það eru allir fúsir að leiðbeina manni“

Guðmundur Ragnarsson er expert í málmsuðu og fylgir Sigfúsi Björgvini Hilmarssyni til Herning. Hann er í hlutverki experts í fyrsta sinn. „Mitt hlutverk hefur verið að undirbúa Sigfús fyrir keppnina og halda utan um að rétt sé staðið að þeim undirbúningi. Ég hef líka verið honum til stuðnings hér í keppninni,“ útskýrir hann. Expertarnir eru einnig í hlutverki dómara.

Guðmundur segir að upplifunin sé mjög góð. „Þetta er mjög skemmtilegt. Ég var stressaður fyrir þetta því ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast. En svo þegar maður kynnist þessu fólki – öðrum expertum hér – þá áttar maður sig á að þeir eru með einn haus og tvær fætur eins og ég. Þetta er fínn hópur kollega og smir eru búnir að taka þátt í Euroskills keppni eftir keppni. Það eru allir fúsir að leiðbeina manni og segja manni til.“

Nítján keppendur eru í málmsuðu á Euroskills – og jafnmargir expertar. Guðmundur segir að expertunum sé skipt í fjóra hópa og hver hópur dæmi tilteknar suður á hverju stykki.

Öflugustu keppendurnir á Euroskills eru mjög færir að sögn Guðmunar. „Við erum kannski ekki alveg í fremstu röð þar en við eigum örugglega einhversstaðar menn í greininni sem eru búnir að þjálfa sig upp í að verða svona góðir,“ segir Guðmundur og bætir við að vinnubrögðin í greininni séu annars sambærileg hér og heima á Íslandi. „Þessi bás gæti allt eins verið inn á verkstæði heima á Íslandi.“