
Öðrum keppnisdegi lokið á Euroskills
Annar keppnisdagur á Euroskills er að kveldi kominn í Herning. Íslensku keppendurnir þrettán hafa glímt við alls kyns áskoranir í dag en í mörgum keppnisgreinum var gerð 30% breyting á því verkefni sem áður hafði verið kynnt. Það hefur því reynt á keppendur að vera lausnamiðaðir og mæta óvæntum aðstæðum.
Á keppnissvæðinu í Herning eru tólf keppnishallir en svæðið er einstaklega hentugt fyrir viðburð sem þennan. Innangengt er á milli allra rýmanna. Stöðugur straumur grunnskólanema er í hallirnar, ekki ósvipað því sem tíðkast á Íslandsmóti iðn- og verkgreina (Mín framtíð) sem haldið er í Laugardalshöll. Á keppnissvæðinu kynna fjölmörg fyrirtæki sem tengjast iðn- og verkgreinum starfsemi sína. Það er því mikill eriill í höllunum og auðvelt að missa einbeitinguna.
Ekki ber á öðru en að íslensku keppendurnir hafi verið einbeitt. Myndirnar bera það með sér. Keppnin hefur gengið áfallalaust fyrir sig en forsvarsmenn íslenska hópsins láta vel af skipulagningu mótsins.
Síðasti keppnisdagurinn er á morgun en þá kemur í ljós hvernig til hefur tekist. Ljóst er að hér hafa allir gert sitt besta og lagt allt í sölurnar.
