Alvaran hafin í Herning

Categories: 2025, Fréttir1 min readPublished On: 10. September 2025Last Updated: 10. September 2025

Keppni á Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina, hófst í Herning í dag en Íslendingar tefla fram 13 keppendum á mótinu. Þar af keppa þrír í rafgreinum.

Glæsileg setningarathöfn fór fram í fyrrakvöld, þar sem íslenski hópurinn steig á svið fyrir fullri höll. Frábær stemmning var á viðburðinum.

Hópurinn hefur aðsetur í LaLandia í Billund, sem er í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Herning en reglubundnar rútuferðir eru á milli LaLandia og keppnisstaðarins. Vel fer um hópinn á dvalarstaðnum. Ekki veitir af því keppnisdagarnir eru langir og pressan áþreifanleg.

Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar og lykilmaður í skipulagningu ferðarinnar, sagði nú undir kvöld, að loknum fyrsta keppnisdegi, að íslensku keppendurnir hafi verið mjög vel af stað og væru landi og þjóð til sóma. Hann sagði að Danir stæðu afar vel að skipulagningu mótsins.

Ísland tekur nú í fimmta sinn þátt í Euroskills. Keppnin er haldin í MCH Messecenter í Herning en þar eru á annan tug keppnishalla. Búist er við um 100 þúsund gestum á keppnina.

Keppninni lýkur á laugardag.

Á vefnum Mín framtíð má finna upplýsingar um framgang mótsins en sérstök athygli er vakin á Instagramsíðu Minnar framtíðar, þar sem birt eru myndbönd og myndir frá keppninni.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Mín framtíð (@min__framtid)