
Kynning á keppendum: Atvinnuleit eftir Euroskills
„Síðustu 3 mánuði erum við búnir að vera hérna á Stórhöfða frá klukkan 8 til 16 alla virka daga – og líka eitthvað um helgar,“ segir Skagfirðingurinn Daniel Francisco Ferreira, keppandi Íslands í húsarafmagni á Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina, sem fram fer dagana 9.-13. september í Herning í Danmörku. Ísland teflir fram 13 keppendum í jafnmörgum iðngreinum á mótinu.
Æfingar hófust síðastliðið haust en aukinn kraftur hefur verið settur í æfingarnar í sumar. Hann er bæði spenntur og stressaður fyrir keppninni. „Já, bara bæði. Ég er mjög spenntur að keppa og sýna hvað maður getur. En það er líka stress. Þetta er svolítið stórt. Svo fer þetta eftir dagsforminu og hversu vel keppinautarnir eru undirbúnir,“ segir hann.
Æfingarnar hafa falist í að leysa sama verkefnið aftur og aftur en þegar á hólminn verður komið verður 30% breyting á því verkefni sem fyrir verður lagt. „Það verður eitthvað öðruvísi og við fáum bara að vita það þegar við mætum á svæðið. En þetta er sami búnaðurinn,“ segir Daniel, sem bauðst að fara á Euroskills eftir góðan árangur á Íslandsmóti iðn- og verkgreina 2023.
Daniel, sem er 23 ára, er úr Lýtingsstaðahreppi, Lýtó, eins og hann kallar hann, sem er í Skagafirði. Hann fór í VMA og segist ekki alveg vita hvað hafi ráðið því að hann sótti um nám í rafmagninu. „Ég ákvað það bara á þeirri stundu sem ég var að fylla út umsóknina. Ég setti grunndeild rafiðna í fyrsta sæti en grunndeild málmiðna í annað. Ég er mjög heppinn að hafa lent á því sem ég elska að gera, í fyrstu tilraun.“
Í tómstundum hittir Daniel vini sína, spilar tölvuleiki og horfir á sjónvarp, eins og flestir geta tengt við. Hann er nýfluttur suður, eftir að hafa lokið við framhaldsskólann og segist ekki alveg vita hvað tekur við þegar hann kemur heim frá Euroskills. „Ég ætla bara að leita mér að vinnu þegar ég kem heim og vonandi byrja að vinna í október,“ segir hann að lokum.
