Kynning á kepp­endum: Youtu­be kveikti áhugann

Categories: 2025, Fréttir2 min readPublished On: 4. September 2025Last Updated: 4. September 2025

„Við erum búin að vera á fullu að æfa í allt sumar en fyrstu æfingarnar voru einhverja helgina í október í fyrra. Við æfðum um helgar í vetur og svo fór þetta á fullt í sumar,“ segir Gunnar Guðmundsson sem keppir fyrir Íslands hönd í iðnaðarrafmagni á Euroskills.

Mótið hefst í Herning í Danmörku eftir fáeina daga en 13 keppendur frá Íslandi taka þátt í mótinu. Þeim til halds og trausts verða 14 expertar, sem jafnframt eru dómarar á mótinu.

Keppendur í rafgreinum hafa æft af kappi í sumar á Stórhöfða 29-31, þar sem góð aðstaða er til æfinga fyrir keppnina. Gunnar vinnur hjá Orkuvirki og segir vinnuveitendur sína mjög skilningsríka gagnvart þátttöku hans á Euroskills og þeim undirbúningi sem þátttakan krefst.

Gunnar tók þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina 2023 og stóð sig vel þar. Í kjölfarið var honum boðið að taka þátt í Euroskills. „Ég samþykkti það – og svo er ég hér,“ segir hann glaður í bragði.

Gunnar segist vera spenntur fyrir þessu verkefni og eins tilbúinn og hægt er að vera. „Þetta er auðvitað pínu stressandi. Ég er búinn að undirbúa mig vel en veit ekki nákvæmlega hvað ég er að fara út í. Þetta er svolítið stórt,“ segir hann.

Hópurinn hefur hist nokkrum sinnum allur en þeir þremenningar sem keppa í rafmagninu hafa verið mikið saman. „Við höfum fengið að hittast öll og farið í hópefli og þess háttar. Þetta er góður hópur,“ segir Gunnar, sem er fæddur og uppalinn í Grafarholti í Reykjavík.

Þegar kemur að tómstundum segist Gunnar fyrst og fremst vera í tónlist. Hann spilar á píanó og básúnu og er í lúðrasveit. „Það er svona mitt helsta áhugamál,“ segir hann.

Spurður hvernig það hafi komið til að hann leiddist út í rafmagnið hugsar Gunnar sig um stutta stund og segir svo að þegar hann hafi verið í efstu bekkjum grunnskóla hafi hann farið að horfa svolítið á myndbönd á Youtube. Þar hafi rafvirkjar verið mjög áberandi. Þannig má segja að algóritminn hafi átt sinn þátt í því að Gunnar fór þessa leið. „Pabbi er símsmiður og ég hafði unnið svolítið með honum. Við höfðum til dæmis gert upp sumarbústað. Ég hafði áhuga á að vinna með höndunum og skráði mig svo bara í nám í Tækniskólanum. Svo er ég bara kominn hingað,“ segir hann og hlær.

Euroskills fer fram dagana 9.-13. september. Rafiðnaðarsamband Íslands mun fylgjast náið með framgangi keppninnar og flytja fréttir hér á síðunni.