Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem hefur gegnt formennsku í RSÍ frá árinu 2011, hefur sagt af sér embættinu. Það gerði hann á fundi miðstjórnar í dag, föstudaginn 7. febrúar. Kristján Þórður tók sæti á Alþingi 4. febrúar síðastliðinn.

Eins og lög sambandsins kveða á um þá boðar miðstjórn RSÍ af þessum sökum til aukaþings sem fram fer 27. febrúar næstkomandi. Tillaga þess efnis var samþykkt á fundinum í dag.

Á dagskrá þingsins verður kjör í embætti formanns, sem sitja mun fram að næsta reglulega þingi vorið 2027, og eftir atvikum í önnur embætti sem kunna að losna við formannskjörið.

Miðstjórn RSÍ færir Kristjáni Þórði þakkir fyrir vel unnin störf í þágu sambandsins og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Hér fyrir neðan má sjá færslu sem Kristján setti á Facebook í dag en þar segir hann meðal annars:

Ég þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir samstarfið og hlakka til að vinna með ykkur öllum áfram í mínu nýja hlutverki. Ég mun að sjálfsögðu verða fólki innan handar með þau verkefni sem þörf verður á.
Ég vil sérstaklega þakka frábæru starfsfólki kærlega fyrir gott samstarf, núverandi og fyrrverandi, Rafiðnaðarsambands Íslands og Fagfélaganna.