Kæra félagsfólk.
Óhætt er að segja að hörmungar og hamfarir hafi sett mark sitt á árið sem er að líða. Stríð geisar nú ekki aðeins í Úkraínu, með tilheyrandi mannfalli og skemmdarverkum, heldur ákváðu Ísraelsmenn að ganga milli bols og höfuðs á Hamas-liðum, eftir langvarandi deilur og óverjandi árásir. Fregnir af skelfilegum afleiðingunum berast á hverjum degi; fréttir af gífurlegu mannfalli barna og annarra saklausra borgara á Gaza. Hvenær er nóg komið? Það er jafnframt grátlegt að sjá alþjóðasamfélaginu mistakast að setja þrýsting á Ísraelsmenn um að láta staðar numið. Íslensk stjórnvöld hafa ekki nýtt tækifæri sín til að krefjast friðar. Það eru mikil vonbrigði, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Hér heima hafa náttúruhamfarir enn á ný sett mark sitt á samfélagið. Að þessu sinni hafa Grindvíkingar orðið fyrir barðinu á jarðhræringum. Fáir geta gert sér í hugarlund hvaða afleiðingar það hefur á líðan fólks að þurfa að yfirgefa heimili sín, með börn og buru, og horfa upp á eldgos í bakgarðinum. Óvissan hefur verið mikil í allt haust og ekki sér fyrir endann á því ástandi. Við þurfum sem samfélag að halda vel utan um Grindvíkinga, ekki bara fyrir jólin, heldur næstu misseri og ár. Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum um þessar mundir.
Þær hörmungar sem hér að ofan eru raktar hafa svo átt sinn þátt í efnahagslegum hamförum, sem varða okkur öll með beinum hætti. Verðbólgan er enn þá mikil, með tilheyrandi eignatilfærslu til fjármagnseigenda, og vaxtastigið sligandi fyrir heimili og fyrirtæki. Hefð er fyrir því að kenna launafólki um verðbólguna. Það er hins vegar ljóst að verðlag hefur hækkað langt umfram umsamdar kauphækkanir launafólks í síðustu kjarasamningum. Það er komið að fyrirtækjunum og hinu opinbera að axla ábyrgð á þeim hækkunum sem þau hafa fleygt út í verðlagið. Það er alveg ljóst að undir kjarasamninga verður ekki skrifað nema með skilyrðum sem tryggja að þessir aðilar leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn verðbólgunni. Það er fullreynt að höfða til samvisku þessara aðila, eða beina til þeim kurteisislegum tilmælum. Við þurfum rauð strik.
Kjarasamningar verða lausir strax í upphafi ársins sem er handan við hornið, nánar tiltekið 1. febrúar. Í Húsi fagfélaganna hefur RSÍ myndað öfluga samninganefnd iðnaðarfólks með VM og MATVÍS. Í því samstarfi felst mikill styrkur. Fagfélögin hafa á fleiri sviðum eflt samstarf sitt á árinu sem er að líða. Félögin standa í dag saman að ýmsum þáttum starfseminnar; halda úti öflugri kjaradeild, standa að námskeiðum fyrir félagsfólk og reka kröftugt vinnustaðaeftirlit, svo fátt eitt sé nefnt. Allt er þetta gert til að bæta þjónustuna við félagsfólk og nýta mannauð aðildarfélaganna.
Gleðilegt hefur verið að horfa upp á aukna eftirspurn eftir iðnnámi á landinu undanfarin ár. Á þessu ári hafa fjölmennar útskriftir farið fram og myndarlegir hópar ungs iðnfólks stigið út á vinnumarkaðinn. Glæsilegt Íslandsmót iðn- og verkgreina var haldið í Laugardalshöll í vor auk þess sem Íslendingar stóðu sig með sóma á Euroskills, Evrópumóti iðngreina, sem fór fram í Gdansk snemma í haust. Það er því alveg ljóst að framtíðin er björt.
Fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands færi ég félagsfólki og landsmönnum öllum mínar bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ.