Kjarakönnun RSÍ stóð yfir dagana 11. október – 7. nóvember 2023. Ágætis þátttaka var í könnuninni en 1.858 svör bárust. Svarhlutfall félagsmanna var fyrir vikið um 31%.
Laun fyrir dagvinnu hækkuðu um 8% á milli ára en heildarlaun um 9%. Launavísitala hækkaði um 11% á sama tíma. Athygli vekur að þátttakendur í fullu starfi unnu að meðaltali 177 stundir í september, sem er fjórum stundum skemur en árið 2020.
Ánægja með laun er svipuð og síðustu tvö ár. Um fjórðungur er óánægður með launin sín en fjórir af hverjum tíu ánægðir.
Miðgildi dagvinnulauna eftir félagi (í þúsundum króna)
- Félag rafeindavirkja 827
- Félag íslenskra rafvirkja 720
- Félag íslenskra símamanna 800
- Rafiðnaðarfélag Suðurnesja 628
- Rafiðnaðarfélag Norðurlands 700
- Félag rafiðnaðarmanna á Suðurlandi 740
- Félag tæknifólks 700
- Grafía 700
Í könnuninni var einnig spurt um önnur hlunnindi. Í niðurstöðunum kemur fram að algengast sé að fólk fái greiddan símakostnað en að matur sé einnig niðurgreiddur víða. Margir starfsmenn fá fartölvu og farsíma. Álíka margir svarendur fengu greidda yfirvinnu í ár, eins og í fyrra, eða 31%.
Fleiri segja brotið á réttindum
Í könnuninni var meðal annars spurt um hvort fólk vissi um dæmi þess að brotið væri á kjarasamningsbundnum réttindum á síðustu 12 mánuðum. 12% sögðu brotið á sínum réttindum, sem er hækkun frá síðustu könnun, en 10% vissu um að brotið væri á öðrum. Algengast var að fólk vissi um brot í kvikmyndaiðnaði.
Fram kemur í niðurstöðum að fólk upplifi sig almennt öruggt í vinnunni og að komið sé fram við það af virðingu. Konur telja síður að fólk fái tækifæri til starfsframa á vinnustað en karlar. Hins vegar algengara að karlar þurfi að vinna óvæntan vinnutíma en konur. Einelti reynist meira á meðal kvenna en karla og eykst lítillega frá árinu 2021 en kynferðisleg áreitni – sem konur verða heldur fyrir – breytist lítið á milli kannana.
Ánægja með orlofskerfið
Í könnuninni voru spurningar um orlofskerfi RSÍ og var afar ánægjulegt að sjá hve jákvæð viðbrögð félagsmanna voru í þeim málaflokki og hversu almenn notkun félaga er á orlofskerfinu eða um 65%.
Konur eru duglegri að nýta sér þjónustu RSÍ en karlar en ánægja með þjónustu RSÍ mælist yfir meðaltali gagnabanka Gallup.
Þátttökuverðlaun dregin út
Búið er að draga úr 10 gjafakort úr hópi þátttakenda, að upphæð 12.000 kr. hvert. Fimm hótelávísanir hafa verið dregnar út; fyrir tvo á einhverju af Fosshótelunum. Auk þess verður fimm punktum bætt við orlofspunkta þeirra félagsmanna sem óskuðu eftir því og skráðu kennitölu sína í enda könnunarinnar. Haft hefur verið samband við vinningshafa vinninga.
Mælaborð Rafiðnaðarsambands Íslands hefur verið uppfært í samræmi við niðurstöður. Þá er hér að finna kynningu á niðurstöðum könnunarinnar.
Miðstjórn RSÍ er ánægð með þátttökuna og þakkar félagsmönnum fyrir.