Samninganefndir félaganna fjögurra í Húsi fagfélaganna; RSÍ, VM, MATVÍS og Byggiðnar funduðu á þriðjudaginn. Fundurinn var fyrsti sameiginlegi fundur samninganefndanna vegna þeirra kjarasamningsviðræðna sem fram undan eru. Kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins verða lausir 1. febrúar 2024. Um fjörutíu manns sátu fundinn.
Tilgangur fundarins var að hefja undirbúninginn með formlegum hætti og þétta raðir iðnaðarfólks fyrir þær viðræður sem fram undan eru.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, setti fundinn og ræddi þær áskoranir sem fram undan eru og þá valkosti sem iðnaðarfólk stendur frammi fyrir í aðdraganda kjaraviðræðna.
Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, kynnti samninganefndum þær efnahagslegu aðstæður sem uppi eru og greindi frá frumniðurstöðum launakönnunar sem félögin stóðu fyrir í sumar. Hann ræddi einnig helstu efnisatriði nýs fjárlagafrumvarps sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fyrr um daginn.
Fjölmargir tóku til máls á fundinum, jafnt formenn félaganna sem aðrir meðlimir samninganefnda. Umræður um álitamál sem snúa að kjaramálum voru bæði beinskeyttar og hreinskiptar. Ljóst er að hugur er í samninganefndum félaganna og félagsfólk hefur fengið nóg af þeirri umræðu að verðbólguna megi aðallega rekja til kjarabóta vinnandi stétta.