20.Sambandsþing Rafiðnaðarsambands Íslands var haldið dagana 4.-6. maí 2023 á Hilton Reykjavik Nordica undir yfirskriftinni, Samstaða til framtíðar. Mæting var með allra besta móti en 129 þingfulltrúar allra aðildarfélaga sambandsins voru skráðir ásamt fjölmörgum bæði innlendum og erlendum gestum. Það var mikill heiður að fá nýkjörinn forseta ASÍ Finnbjörn A. Hermannsson sem hélt ræðu við setningu þingsins. Sauli Vanti formaður NEF (samtaka Norrænna Rafiðnaðarsambanda), einn af fjölmörgum erlendum gestum ávarpaði þingið og Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women heiðraði okkur einnig með nærveru sinni og fór yfir mikilvægi stuðnings RSÍ við UN Women síðustu fjögur ár og hvernig sá stuðningur nýttist starfsemi þeirra.

Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women og Kristján Þórður formaður RSÍ

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ

Sauli Vanti formaður NEF (samtaka Norrænna Rafiðnaðarsambanda)

Fjölmörg málefni voru til umfjöllunar á þinginu, farið var yfir stöðu RSÍ síðustu fjögur ár, kjarasamningaviðræður og starfsemi sambandsins þar sem þingfulltrúar voru virkir í stefnumarkandi umræðu um þau verkefni sem framundan eru. Þingfulltrúar tóku þátt í nefndarstörfum  sem skiluðu niðurstöðum til þingsins sem leiðarvísir í starfi RSÍ næstu fjögur árin.

Kosningar fóru fram um æðstu embætti sambandsins, Kristján Þórður Snæbjarnarson var endurkjörinn formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Andri Reyr Haraldsson var kjörinn varaformaður,  Jakob Tryggvason var endurkjörinn gjaldkeri og Bára Laxdal Halldórsdóttir var kjörin ritari til næstu fjögurra ára Einnig fór fram kjör í miðstjórn, varamiðstjórn, sambandsstjórn og vara sambandsstjórn. Á heimasíðu okkar, www.rafis.is má sjá nöfn þeirra sem sitja í stjórnum sambandsins. Konum fjölgaði í stjórn að þessu sinni þar sem tvær konur komu nýjar inn í bæði miðstjórn og varamiðstjórn. Fjórir miðstjórnarmenn hættu störfum, Jón Óskar Gunnlaugsson, sem jafnframt sinnti embætti varaformanns RSÍ frá síðasta sambandsstjórnarfundi í maí 2022  Kristján Helgason, Sigmundur Grétarsson og Trausti Friðriksson. Þeim eru þökkuð vel unnin störf í þágu RSÍ síðustu fjögur ár.

Á þingi RSÍ eru ávallt veittir styrkir til góðra málefna. Að þessu sinni urðu urðu Bergið Headspace og Rafíþróttasamtök Íslands fyrir valinu. Bergið headspace er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri Markmið Bergsins er að bjóða upp á lágþröskuldaþjónustu með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf þar sem markmiðið er að stuðla að bættri líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu.

Markmið Rafíþróttasamtaka Íslands er að skapa heilbrigða iðkun tölvuleikja í skipulögðu starfi sem byggir á æfingum í hóp, markvissum líkamlegum æfingum, æfingum í viðeigandi rafíþrótt, fræðslu um mikilvægi svefns, heilbrigðs mataræðis og heilbrigðra skilaháta og áhrif þess á frammistöðu í rafíþróttum ásamt því að hugað er að andlegri þrautseigju iðkenda. Báðir þessir aðilar fá árlegan styrk næstu fjögur árin þar sem markmið RSÍ er að styrkja unga fólkið og styðja það til virkrar þáttöku í samfélaginu til framtíðar.

Fulltrúar þingsins og gestir