Kjarasamningar VM og RSÍ vegna starfsfólks í orkugeiranum voru undirritaðir hjá Ríkissáttasemjara í morgun. Skrifað var undir nýja kjarasamninga vegna Orkuveitu Reykjavíkur og undirfyrirtækja, Landsvirkjunar, HS Veitna, Orkubús Vestfjarða, HS Orku og Norðurorku. Þá skrifaði RSÍ undir nýjan kjarasamning vegna RARIK. Jafnframt náðist samkomulag um að fresta viðræðum vegna starfsfólks RSÍ hjá Landsneti fram yfir sumarleyfi.

Samningarnir eru á þeim nótum sem samið hefur verið um á almennum markaði.

Kynningar á þessum kjarasamningum fara fram á þriðjudag og miðvikudag í komandi viku, 18. og 19. júní. Kynningarnar fara fram á fjarfundi en hver hópur fær í dag sendan hlekk í tölvupósti og nánari tímasetningu kynningarfundanna. Þeir sem ekki fá tölvupóst með fundarboði geta haft samband við skrifstofu Fagfélaganna.

Atkvæðagreiðslur um samningana hefjast þriðjudaginn 18. júní og standa yfir til 24. júní.

Á myndinni að ofan sjást Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ og Óskar Þorsteinsson, trúnaðarmaður Landsvirkjunar, skrifa undir kjarasamning fyrir hönd launafólks.

 

Skrifað undir fyrir HS Veitur

Aðilar takast í hendur eftir undirritun.