Yfirlýsing:

VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna og RSÍ – Rafiðnaðarsamband Íslands lýsa yfir vonbrigðum með vinnubrögð Samtaka atvinnulífsins og fyrirtækja í orkugeiranum þegar kemur að kjaraviðræðum.

Eftir margra mánaða fundarhöld hafa viðsemjendur VM og RSÍ enn ekki sýnt fram á samningsvilja. Staðan er sú að félagsfólk þessara félaga innan orkugeirans hefur verið samningslaust í bráðum fjóra mánuði án þess að fram hafi farið raunverulegt samtal um kjör þess, öryggi eða starfsumhverfi.

Ljóst er að þolinmæði samninganefnda VM og RSÍ innan orkugeirans er á þrotum. Þær eru að verða úrkula vonar um að skrifað verði undir nýjan kjarasamning. Næstu skref í kjaradeilunni verða tekin með þá stöðu að leiðarljósi.

VM og RSÍ hvetja fyrirtækin í orkugeiranum til að sýna starfsfólki sínu þá virðingu að standa fyrir raunverulegu samtali við starfsfólk sitt við samningaborðið. Framganga SA við samningaborðið hefur ekki verið til þess fallin að þoka viðræðunum í rétta átt.

Guðm. Helgi Þórarinsson, formaður VM
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ