Nýsveinar í rafvirkjun og rafeindavirkjun tóku við sveinsbréfum sínum í Hofi á Akureyri þann 17. maí 2024. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var um fríðan hóp að ræða en Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, tók þátt í athöfninni.

Einar Örn Ásgeirsson tók við sérstakri viðurkenningu fyrir verklegan árangur á sveinsprófi í rafeindavirkjun í febrúar sl.

RSÍ óskar nýsveinum til hamingju með áfangann og hlakkar til samstarfs við þá um ókomin ár.

 

 

Byggt við VMA

Kristján Þórður nýtti ferðina norður vel því hann var einnig viðstaddur undirritun samkomulags um stækkun Verkmenntaskólans á Akureyri.

Í frétt á vef VMA segir að um sé að ræða 1500 fermetra nýbyggingu fyrir verknámsbrautir skólans. Þangað færist nám í húsasmíði og bifvélavirkjum en við það rýmkast um aðrar verknámsbrautir, sem hafa lengi búið við þröngan kost. „Í framhaldi af nýbyggingunni er gert ráð fyrir að nám á rafiðnbraut færist í núverandi húsnæði byggingadeildar, aðstaða námsbrautar í hársnyrtiiðn verður bætt sem og matvælabrautar og vélstjórnar, auk ýmissa annarra hrókeringa í núverandi húsnæði.“

Dagurinn var nokkuð viðburðaríkur hjá mér, byrjaði daginn hjá sáttasemjara en flaug síðan beint norður til Akureyrar þar sem ég fór í VMA og var viðstaddur undirritun samkomulags um stækkun skólans. Endaði síðan daginn í Hofi þar sem við afhentum sveinsbréf í rafvirkun og rafeindavirkjun. Virkilega skemmtilegt.