Kæra félagsfólk.
Heil öld – og einu ári betur – er nú liðin frá því íslenskt launafólk fór í sína fyrstu kröfugöngu en 1. maí hefur verið löggiltur frídagur á Íslandi frá árinu 1966. Á þessum degi er við hæfi að líta um öxl og minna okkur á hvers vegna við komum saman á þessum degi og krefjumst réttlátari skiptingar.
Verkalýðshreyfingin hefur náð fram réttindum og áföngum sem yngra fólki í dag þykja sjálfsögð og eðlileg. Þar má nefna almannatryggingar (1936), orlofsrétt (1942), atvinnuleysistryggingar (1957), tilkomu lífeyrissjóða (1969), sjúkrasjóði (1979) og fæðingarorlof feðra (2000), svo stiklað sé á stóru. Þessi réttindi spruttu ekki upp í tómarúmi heldur eru þau afrakstur samstilltrar baráttu vinnandi stétta; mæðra okkar og feðra, amma okkar og afa. Hvernig þætti þér að geta ekki sótt um bætur, ef svo illa færi að þú misstir vinnuna? Hvernig þætti þér að eiga ekki rétt á fæðingarorlofi, þegar þú eignast barn? Sennilega er tilhugsunin óhugsandi. Fyrir það eigum við eldri kynslóðum þessa lands að þakka.
Snýst um réttláta skiptingu
Allir mælikvarðar sýna, svo ekki verður um villst, að Ísland er eitt ríkasta land í heimi, sama hvort horft er á félagslega þátta eins og heilsu, menntunar og öryggis eða efnahagslegra þátta á borð við tekjur, verðmætasköpun eða atvinnustig. Á Íslandi – ef einhvers staðar – er nóg til. Bætt lífskjör fyrir allt launafólk þarf að vera meginútgangspunktur verkalýðsbaráttunnar. Það eru bæði gömul sannindi og ný.
Að þessu sinni er yfirskrift 1. maí Sterk hreyfing – sterkt samfélag. Sagan, sem er stuttlega reifuð hér að ofan, undirstrikar hversu vel þessi orð eiga við á þessum degi. Þegar vinnandi fólk stendur saman og krefst bættra réttinda og kjara, leiðir það til aukinnar hagsældar fjöldans; samfélagið verður betra og sterkara. Allt launafólk á að fá réttlátar greiðslur fyrir sitt vinnuframlag – réttlát sneið kökunnar – þannig að öll geti búið við mannsæmandi lífskjör. Um það snýst baráttan í dag.
Þrátt fyrir ríkidæmi landsins, verðmætar náttúruauðlindir og sterkan mannauð, eru of margir hópar í samfélaginu sem búa við kröpp kjör. Hækkun á verðlagi og háir vextir hafa gengið nærri heimilum launafólks í landinu að undanförnu. Í kjölfar þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu er mikilvægt að allt samfélagið taki þátt í því verkefni að halda aftur af verðlagshækkunum en það virðist ganga alltof hægt. Fyrstu merki um afraksturinn mátti sjá í liðinni viku þegar tilkynnt var um að verðbólga hefði lækkað örlítið. Hún hefur vissulega ekki verið minni frá árinu 2022 en er óásættanlega mikil enda erum við enn í fjötrum hárra vaxta þrátt fyrir hagfellda umgjörð til þess að vextir lækkuðu þó nokkuð.
Nú þurfa aðrir aðilar í íslensku samfélagi, fyrirtækin í landinu og stofnanir hins opinbera, að axla ábyrgð og ganga í sömu átt. Enginn á að þurfa að líða skort á Íslandi, greiða á sanngjörn laun fyrir vinnu okkar fólks.
Ég hvet ykkur, félagsfólk í Rafiðnaðarsambandi Íslands, til að taka þátt í kröfugöngu dagsins og hátíðarhöldum. Ykkur er í tilefni dagsins boðið í kaffi á Stórhöfða 31, að kröfugöngu lokinni. Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ.