Kjaradeild Fagfélaganna fékk nýverið mál til skoðunar þar sem ríkisstarfsmaður framvísaði vottorði um óvinnufærni til vinnuveitanda.  Stofnunin óskaði eftir að starfsmaður gengist undir skoðun hjá trúnaðarlækni til staðfestingar á óvinnufærni. Starfsmaður vísaði á lækninn sem gaf út vottorðið og benti trúnaðarlækni á að hafa samband við hann til að fá upplýsingar um ástand sitt.

Stofnunin setti það sem skilyrði fyrir greiðslu launa í veikindaforföllum mannsins að hann gengist undir skoðun hjá trúnaðarlækni.

Lögfræðingur og lögmenn Fagfélaganna höfðu samband við stofnunina og vísuðu til nýlegrar dómaframkvæmdar sem staðfestir að starfsmönnum ber ekki skylda til að mæta til skoðunar hjá trúnaðarlækni til sönnunar á óvinnufærni vegna veikinda, sbr. niðurstöðu Félagsdóms í máli nr. 3/2022 og dóms Landsréttar í máli nr.168/2022.

Í kjölfarið lét stofnunin af þeirri kröfu að starfsmaður mætti til skoðunar hjá trúnaðarlækni og greiddi honum laun í veikindaforföllum á grundvelli fyrirliggjandi læknisvottorðs um óvinnufærni.