Félagsfólki RSÍ stendur til boða að kaupa ferðaávísun, sem niðurgreidd er af félaginu og veitir aðgang að sértilboðum á hótelum, gistiheimilum og afþreyingu um land allt. Ferðaávísunina er hægt að kaupa á orlofsvefnum. Ávísunin gildir í raun sem inneign sem hægt er að nota til að kaupa gistingu eða aðrar vörur hjá fjölmörgum samstarfsaðilum ávísunarinnar. Alls eru 25 hótelkeðjur og gistiheimili í samstarfi við ferðaávísun.

Félagsfólk nýtur ekki aðeins sértilboða í gegn um ferðaávísun heldur niðurgreiðir félagið ávísunina að auki um 20% af valinni upphæð eða að hámarki um 15.000 kr. á almanaksári. 30 punktar dragast frá punktastöðu félagsfólks við fulla nýtingu.

Eins og fyrr segir er ávísunin keypt á orlofsvefnum. Hægt er að fá hana endurgreidda hvenær sem er, en þá aðeins þá upphæð sem viðkomandi lagið sjálfur út. Punktar fást einnig endurgreiddir.

Undanfarið hafa þjónustuaðilar sem bjóða upp á afþreyingu hafið samstarf við ferðaávísun. Hægt er að kaupa skipulagðar gönguferðir á sérkjörum með Fjallafjör, Ferðafélagi Íslands og Ferðafélaginu Útivist. Þá býður Hótel Heydalur upp á kajakferðir, svo dæmi sé tekið.

Hvernig nota ég ferðaávísun?

Félagsfólk pantar gistingu þegar því hentar og greinir við það tilefni frá því að til standi að greiða fyrir gistinguna með ferðaávísun frá RSÍ. Þegar mætt er á staðinn nægir að gefa upp kennitölu. Ef hótelið eða gistiheimilið sem viðkomandi valdi sér er fullbókað, þegar á reynir, má nota ávísunina til kaupa á gistingu hjá hvaða öðrum samstarfsaðila okkar sem er. Ávísunin er rafræn og rennur ekki út. Hún gildir hvenær sem er, að undangenginni bókun hjá viðkomandi gististað eða afþreyingarfyrirtæki.

Athugið að ef herbergi er bókað á vefmiðlum, svo sem heimasíðu hótelsins, eða öðrum vefmiðlum, er ekki hægt að greiða fyrir gistinguna með ferðaávísun frá stéttarfélagi, þar sem gestur hefur þá skuldbundið sig til að greiða við komu á hótel þá upphæð sem hann samþykkir við bókun.

Hvar sé ég hvaða tilboð eru í boði?

Á orlofsvefnum geturðu skráð þig inn, eins og þegar þú sækir um orlofshús, og valið „Ferðaávísun“. Þá ferð þú yfir á síðu þar sem allar upplýsingar koma fram. Hvert hótel eða gistiheimili getur verið með mörg tilboð, eftir gerð herbergis eða innifalinni þjónustu.

Hvers vegna ætti ég að kaupa ferðaávísun?

Vegna þess að hótelkeðjur og gistiheimili hafa boðið félagsmönnum stéttarfélaganna, í krafti fjölda þeirra, betri tilboð en hægt er að fá á almennum markaði.