Elísa Reid forsetafrú og verndari kokkalandsliðsins, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Klúbbur matreiðslumanna, fjölskyldur keppenda, vinir og styrktaraðilar kokkalandsliðsins tóku á móti íslenska kokkalandsliðinu við fallega athöfn í húsnæði Festus á Höfðabakka síðdegis í gær.
Kokkalandsliðið náði frábærum árangri á Ólympíuleikunum í matreiðslu í Stuttgart, sem nú er lokið. Liðið kom heim með bronsverðlaun og var í raun hársbreidd frá því að vinna mótið. Þátttökuþjóðir voru 55 talsins.
Höfðinglegar móttökur
Árni Þór Arnórsson, varaforseti Klúbbs matreiðslumeistara, segir í samtali við Fagfélögin að um 70 manns hafi tekið á móti þreyttum ferðalöngum í gær en liðið kom beint af flugvellinum. Elísa Reed, verndari liðsins, hélt ræðu auk þess sem Guðni forseti og Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, héldu stutta tölu. Léttar veitingar voru á boðstólnum.
Árni Þór segir að sérstaklega ánægjulegt hafi verið að taka á móti hópnum eftir þennan frábæra árangur sem hann náði í Stuttgart. „Þetta er besti árangur sem Ísland hefur náð. Liðið hefur áður náð þriðja sæti en að þessu sinni eru stigin fleiri.“ Hann bendir á að grátlega lítill munur hafi verið á efstu sætunum þremur. Finnar stóðu, nokkuð óvænt, uppi sem sigurvegarar en Norðmenn og Svíar – sem hafa vanist því að vera í fremstu röð – komust ekki á pall. Snædís Xyza Mae Ocampo matreiðslumaður er þjálfari íslenska kokkalandsliðsins.
Aðstaðan skiptir sköpum
Kokkalandsliðið hefur aðstöðu í Húsi fagfélaganna og nýtir hana til æfinga. „Þessi frábæra aðstaða sem við höfum hjá Fagfélögunum skiptir okkur öllu máli og á sinn þátt í þessum árangri. Ekki síður skiptir velgjörð þeirra sem vinna í húsinu, þolinmæði og tillitssemi okkur miklu máli. Það er ofsalega vel tekið á móti okkur á Stórhöfðanum.“
Árni segir að þessi árangur Íslands sé mikil auglýsing fyrir íslenskra matreiðslu og beinir sjónum að þessum spennandi valkosti þegar kemur að námsvali ungs fólks. „Þetta er líka ákveðin landkynning sem við þurfum að vera dugleg að vekja athygli á.“
Ljósmyndari Fagfélaganna var að sjálfsögðu á staðnum í gær og myndaði herlegheitin.