Fagfélögin ýttu auglýsingaherferð úr vör í byrjun vikunnar. Auglýsingarnar birtast í hinum ýmsu miðlum næstu daga, ýmist í sjónvarpi, á vefmiðlum, á samfélagsmiðlum og víðar.
Slagorð auglýsingaherferðarinnar er „Ekki okkar verðbólga!“ Með því vilja Fagfélögin vekja athygli á að launafólki verður ekki kennt um verðbólguna sem samfélagið glímir við um þessar mundir.
Auglýsingarnar sýna annars vegar fram á að verðlag hefur hækkað umfram laun frá árinu 2019 en hins vegar að hlutfall launa af verðmætasköpun hefur farið lækkandi undanfarin ár.
Kjarasamningar verða lausir 1. febrúar næstkomandi. Mikilvægt er þar að veita launafólki sanngjarnar kjarabætur en vinna jafnframt gegn verðbólgu og háum vöxtum.