Græn umskipti á vinnumarkaði voru til umfjöllunar í fjölmennu þríhliða samtali sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu þann 1. desember síðastliðinn. Ráðstefnan bar yfirskriftina Green Transition on the Nordic Labor Market: A Tripartite Dialogue. Samtalið fór fram undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og til grundvallar því lá viljayfirlýsingin Reykjavik Memorandum of Understanding. Í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að horfa til tækifæra og áskorana grænna umskipta til að tryggja að þau verði réttlát og treysti hin sameiginlegu gildi á norrænum vinnumarkaði.

Í Hörpu voru fulltrúar norrænna launþegar, atvinnurekenda og stjórnvalda – og kallast það fyrir vikið þríhliða. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, var á meðal fulltrúa íslenskra launþega.

Kristján, sem gegnir til áramóta stöðu forseta Norrænna samtaka verkalýðsfélaga (NSF), segir að honum þyki samtalið um græn og réttlát umskipti afar mikilvægt enda eigi Norðurlöndin að vera í fararbroddi í þessum málefnum. „Það er ekki aðeins mikilvægt að ræða staðbundnar áskoranir heldur einnig horfa á hvað þarf að gera á alþjóðlegum vettvangi. Það er jafnframt skylda okkar að sjá til þess að græn umskipti verði á forsendum fólks,“ segir hann.

Formaðurinn bendir á að Norðurlöndin hafi mikla reynslu af því að vinna saman að úrlausn mikilvægra áskorana. Hann nefnir menntamál þar sem dæmi. „Það er mikilvægara en aldrei fyrr en herða róðurinn þegar kemur að samstarfi þessara landa. Við þurfum að vinna náið saman til að geta tekið ákvarðanir sem byggja á sjálfbærni – fyrir komandi kynslóðir og fyrir jörðina okkar,“ segir Kristján.

Norðurlöndin standa að mati Kristjáns á krossgötum. Í aðra röndina sé stefnan skýr og ljóst sé hvert þessi lönd vilji stefna. Á hinn bóginn þurfi þau að horfast í augu við að þau eru hluti af vandamálinu þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun jarðar. „Í mínum huga hefur of lítið verið gert. Við erum eiginlega enn á byrjunarreit. Það dregur alltof hægt úr losun koltvísýrings.“

Hann segir að dýpri samræður þurfi að eiga sér stað um grænu umskiptin og hvernig þau hafi áhrif á störf fólks og menntun. „Við þurfum að kortleggja hvernig störfin verða í framtíðinni og tryggja að vinnandi stéttir eigi til hnífs og skeiðar. Við þurfum að tileinka okkur nýja þekkingu og færni, með hliðsjón af markmiðum um græn umskipti.“

Ísland er sumpart í góðri stöðu, sérstaklega þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Kristján bendir þó á að Íslendingar eigi mikið verk óunnið þegar kemur að losun koltvísýrings. „Við verðum að axla ábyrgð og taka þátt í að vinna að grænum umskiptum,“ segir Kristján Þórður.

Eftir fundinn liggur sameiginleg viljayfirlýsing þátttakenda ráðstefnunnar þar sem tekið er undir ályktun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti en hún fjallar um að aðgerðir til að stuðla að réttlátum umskiptum séu nauðsynlegar til að ná fram félagslegu réttlæti, mannsæmandi vinnuskilyrðum, útrýmingu fátæktar meðfram baráttunni við loftslagsbreytingar. Framtíð samfélaga, efnahags, starfa og lífsviðurværis sé í húfi og hún velti á heilbrigði vistkerfa og náttúru plánetunnar. Í yfirlýsingunni er einnig tekið undir að leiðbeiningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti skuli vera lagðar til grundvallar stefnumótunar og aðgerða tengdum umskiptunum.