Félagsdómur hefur sýknað Alþýðusamband Íslands vegna Eflingar – stéttarfélags af fimm kröfum Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Samtökin kröfðust þess meðal annars að viðurkennt yrði að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands ætti ekki við um félagsfólk fyrirtækja innan SVEIT. SA hefði ekki umboð til að semja fyrir hönd félgasmanna sinna og vinnumarkaðslöggjöfin mælti ekki fyrir um almenna heimild samtakanna til að taka ákvarðanir fyrir atvinnurekendur sem stæðu utan þeirra.
Í dómnum kemur fram að SVEIT séu sjálfstæð samtök sem stofnuð voru árið 2021 í því skyni að skapa vettvang fyrir fyrirtæki á veitingamarkaði til að standa vörð um og tryggja sérstaka hagsmuni sína. Að félaginu standa að sögn 175 rekstraraðilar sem reka um 300 veitingastaði og hafa á bilinu 5.500 til 6.000 starfsmenn í vinnu. SVEIT stóð í þeirri meiningu að með aðild hafi félagsmenn veitt samtökunum umboð til að fara með gerð kjarasamninga og ákvarðanir um vinnustöðvanir.
Alþýðusamband Íslands, sem hefur ekki viljað setjast við samningaborð við SVEIT, hafnaði þessum málatilbúnaði og sagði að tilgangur málsóknarinnar virtist vera að félagsmenn gætu greitt starfsmönnum lægri laun en kveðið er á um í samningum aðila vinnumarkaðarins.
Dómurinn hafnaði þremur kröfum SVEIT en vísaði öðrum tveimur frá dómi. Dómurinn áréttaði að félagsmenn SVEIT væru með sama hætti og aðrir atvinnurekendur á veitingamarkaði bundnir af þeim lágmarkskjörum sem mælt væri fyrir um í þeim kjarasamningi sem komst á með samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara þann 8. mars 2023. Samtökin voru loks dæmd til að greiða 800 þúsund krónur í málskostað.