Sænskir kjarasamningar skulu gilda í Svíþjóð – jafnvel þegar alþjóðleg stórfyrirtæki eru annars vegar. Öðruvísi er ekki hægt að tryggja fólki mannsæmandi laun, launahækkanir, eftirlaun og önnur réttindi. Öðruvísi er ekki hægt að fyrirbyggja félagsleg undirboð. Í Svíþjóð eru ekki til lög um lágmarkslaun en laun eru aftur á móti ákvörðuð í kjarasamningum. Fyrirtæki sem ekki gerir kjarasamning við stéttarfélag fyrir starfsfólk sitt, getur í raun greitt eins lág laun og því sýnist.

Um þetta snýst í grunninn deila rafbílarisans Tesla við verkalýðsfélagið IF Metall, sem hefur í barist fyrir bættum kjörum starfsfólks fyrirtækisins. Starfsfólk Tesla hefur verið í verkfalli undanfarnar vikur en sífellt fleiri verkalýðsfélög hafa boðað til samúðaraðgerða. Á meðal þeirra sem hafa lagt niður störf í því skyni er starfsfólk í póstþjónustu. Það hefur haft þær afleiðingar fyrir Tesla að fyrirtækið hefur ekki fengið númeraplötur vegna nýskráðra bifreiða afhentar.

Elon Musk, eiganda Tesla, er ekki skemmt. Í byrjun vikunnar lýsti hann því yfir á samfélagsmiðlinum X – áður Twitter – að honum þætti þessar aðgerðir galnar. Hann hefur höfðað mál á hendur sænska ríkinu og krefst þess að fá skráningarnúmerin sem sænsk samgönguyfirvöld hafa gefið út vegna ökutækja í eigu fyrirtækisins afhent. Svíar eru þeirrar skoðunar að ekki megi dreifa númerunum með öðrum hætti en í gegn um opinbera póstfyrirtækið Postnord.

IF Metall segir að starfsfólk Teslu sé á launum sem eru undir markaðslaunum. Alþýðusamband Svíþjóðar bendir á að fyrirtæki sem ekki vilja semja við sænsk verkalýðsfélög haldi því iðulega fram að kjör starfsfólksins séu góð og að kjörin myndu versna ef gerðir yrðu kjarasamningar. Bent er á að röksemdafærslan haldi ekki vatni. Kjarasamningur komi ekki í veg fyrir að fyrirtæki greiði betri laun en kveðið er á um í samningi. „Án kjarasamnings eru öll völdin hjá vinnuveitandanum, þegar kemur að kjörum. Við getum aldrei fallist á það. Þannig vinnum við ekki í Svíþjóð,“ segir í frétt á vef sambandsins.

Þar segir enn fremur að ef Svíar gæfu eftir gegn Teslu myndu fleiri alþjóðleg stórfyrirtæki ganga á lagið. Sænska vinnumarkaðsmódelið sé undir.

Rafiðnaðarsamband Íslands styður eindregið aðgerðir starfsfólks gegn rafbílaframleiðandanum – og sendir baráttukveðjur til Svíþjóðar.