„Við erum að þjálfa og undirbúa okkur fyrir Ólympíuleikana í matreiðslu sem fara fram í Stuttgart í Þýskalandi dagana 2. til 7. febrúar“ segir Snædís Xyza Mae Jónsdóttir, þjálfari íslenska kokkalandsliðsins. Þrátt fyrir að Snædís sé á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari er hún þaulreyndur landsliðsmaður í matreiðslu. Hún var aðstoðarmaður í landsliðinu fyrst um sinn en fór svo út sem liðsmaður á Ólympíuleikana 2018 og var þá fyrirliði liðsins. Árið 2020 fór hún aftur út sem fyrirliði og keppti fyrir Íslands hönd, þá ófrísk. „Ég lærði rosalega mikið,“ segir Snædís um reynslu sína af keppni á Ólympíuleikum. Hún segist þar hafa kynnst geiranum betur og því hugarfari sem keppnisfólk í matreiðslu býr yfir. Um sé að ræða afar metnaðarfullan hóp sem leggi allt í sölurnar. „Ég upplifði það þarna að vera umkringd matreiðslumönnum sem er með jafn mikla ástríðu fyrir þessu og ég. Í kokkalandsliðinu eru allir á sömu blaðsíðu með hvernig matreiðslu maður er að vinna með – og þessi keppnismatreiðsla er alveg sér kafli út af fyrir sig,“ útskýrir hún.

 
 
 
 
 
 
View this post on Instagram
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Kokkalandsliðið (@icelandicculinaryteam)

Kokkalandsliðið á athvarf í Húsi fagfélaganna

Landsliðið hefur aðsetur og æfir í sérútbúnu eldhúsi í Húsi fagfélaganna. Snædís er afar ánægð með æfingaaðstöðuna. „Þessi aðstaða er náttúrulega bara draumur. Ég hef verið í mörg ár í landsliðinu og þetta er mikil bylting. Það er ekki langt síðan landsliðið var á flakki og þurfti að redda sér æfingaaðstöðu og ferja allt dótið og hráefnið á milli staða. Fyrir vikið voru æfingarnar lengri – kannski fimm dagar í senn – en nú nýtist tíminn betur. Við æfum tvo til þrjá daga í senn, aðra hverja viku.

Kokkalandsliðið, sem Klúbbur matreiðslumeistara heldur úti með stuðningi fagfélaganna og ýmissa bakhjarla, mun í Stuttgart taka þátt í tveimur keppnisgreinum. Annars vegar er um að ræða keppnisgrein sem kallast „Restaurants of nation“, þar sem þriggja rétta máltíð er borin fram fyrir 110 manns. Landsliðið skilaði á dögunum myndum af réttunum þremur fullbúnum, ásamt lýsingu. Sú lýsing þarf að standast 100% þegar á hólminn er komið. Þannig er svigrúm til að betrumbæta réttina eða gera breytingar liðinn en áherslan er sem fyrr á íslenskt hráefni. Nú stendur yfir æfingatímabil fram að keppni þar sem að ýmsu er að hyggja.

Ólíkar greinar

Hins vegar er um að ræða keppnisgrein sem heitir „Chefs table“. Þá eru 12 smáréttir eldaðir fyrir 12 manns þar sem landsliðið hefur einnig frjálsar hendur að mestu. Aðeins kjötrétturinn þarf að vera eftir ákveðinni uppskrift. „Við fáum ekki að vita hver kjötrétturinn verður fyrr en tveimur mánuðum fyrir keppni. Þessar keppnisgreinar eru mjög ólíkar,“ áréttar hún. „Restaurants of nation er svona hálfgerður veitingastaðafílingur en Chefs table meira eins og fine dining,“ útskýrir Snædís.

Einbeittir landsliðsmenn búa sig undir að stilla upp á diska.

Hún viðurkennir að það hafi verið svolítið taugatrekkjandi að senda frá sér myndirnar. „Þetta er mikil pressa en við stöndum og föllum með því sem er á myndinni. Við verðum dæmd út frá því. Ef eitthvað vantar eða er ekki nákvæmlega eins og á myndinni þá fáum við mínus fyrir það.“  Hún bendir á að allir sem eru í kokkalandsliðinu eigi það sameiginlegt að vera með fullkomunaráráttu og vilji sífellt vera að betrumbæta. „Það er svolítið erfitt að vera búin að negla allt niður mörgum mánuðum fyrir keppni – og geta engu breytt.“

En ef matseðillinn er tilbúinn, hver er þá áherslan núna?

„Núna erum við að einbeita okkur að eldhúsinu. Þar erum við dæmd út frá hitastigi matarins, skipulagi, verklagi, hreinlæti meðferð á hráefni, samvinnu og geymslu á matvælum,“ útskýrir hún. Liðið þarf einnig að standast kröfur sem snúa að orkunotkun. Sú orka sem eldhúsið notar er mæld nákvæmlega. „Við erum alltaf að keppast við hitann,“  segir hún og nefnir sem dæmi að gera þurfi ráð fyrir því að maturinn kólni þegar þjónarnir bera hann inn í salinn og á borð þess sem snæðir hann. Þau munu ekki vita hverjir í þessum 110 manna hópi séu dómarar. Þess vegna skipti öllu máli að allir diskarnir séu nákvæmlega eins og alveg fullkomnir. Sá sem þessa grein ritar fékk boð í slíka veislu og getur vottað að þar er allt upp á tíu.

Keppendurnir skipta með sér hlutverkum en eru þó til taks hvort fyrir annað, ef á þarf að halda þegar á hólminn er komið. Sex eru í eldhúsinu og þar sjá tveir um forréttinn, tveir um aðalréttinn og tveir um eftirréttinn. Einn uppvaskari er í hópnum og annar liðsmaður stýrir keyrslunni fram í sal. Að lokum sér einn meðlimur hópsins alfarið um að búa til sykurstyttu, sem er hluti af Chefs table.

Fólk í fullri vinnu

Stund milli stríða. Snædís stillir sér upp fyrir myndatöku. Gæta þurfti sérstaklega að því að mynda ekki matinn, enda um hernaðarleyndarmál að ræða fram að keppni.

Ljóst er að um mikla vinnu er að ræða. Snædís bendir á að í kokkalandsliðinu sé fólk sem er samhliða í fullri vinnu. Þetta sé hópur sem brenni fyrir keppnismatreiðslu og noti frítíma sinn og jafnvel fórni vöktum, til að geta verið með í þessu. Góð aðstaða skiptir sköpum, eins og áður segir, til að hægt sé að nýta tímann sem best og undirbúa sig af kostgæfni fyrir verkefnið. „Það er frábært að félögin séu að skaffa okkur þessa aðstöðu. Það er yndislegt að fá að vera hér,“ segir hún að lokum.

Stund milli stríða. Snædís stillir sér upp fyrir myndatöku. Gæta þurfti sérstaklega að því að mynda ekki matinn, enda um hernaðarleyndarmál að ræða fram að keppni.