Miðstjórn RSÍ gerir verulegar athugasemdir við setu Pálmars Óla Magnússonar í stjórn Birtu lífeyrissjóðs, á meðan hann hefur réttarstöðu sakbornings og í ljósi birtingu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um brot Samskipa gegn banni við ólögmætu samráði. Pálmar Óli var framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa á þeim tíma sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nær til.
Seta Pálmars Óla í stjórn og sem stjórnarformaður Birtu lífeyrissjóðs getur haft þær afleiðingar að skaða ímynd Birtu meðal sjóðsfélaga og almennings og haft bein áhrif á trúverðugleika og orðspor sjóðsins.

Miðstjórn RSÍ skorar á Pálmar Óla Magnússon að stíga til hliðar á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Ástæða þess er sú að miðstjórn sem og fulltrúaráð launafólks hjá Birtu lífeyrissjóði metur svo að Pálmar Óli uppfylli ekki lengur skilyrði greinar 5.3 samþykkta Birtu lífeyrissjóðs um gott orðspor, vegna fyrr greindra atriða.

Miðstjórn RSÍ telur aðgerðaleysi Samtaka atvinnulífsins gagnvart þessu máli verulega gagnrýnivert og vekur upp spurningar um það hvort eðlilegt sé að fulltrúar atvinnurekenda sitji í stjórnum sjóða sem hafa það eitt markmið að tryggja launafólki lífeyri á efri árum. Einsýnt er að nauðsynlegt er að gera breytingar á aðkomu atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða.