Árlegt þing ASÍ ung var haldið þann 22. september síðastliðinn í Húsi fagfélaganna. Yfirskrift þingsins var „Stefna ASÍ-UNG“ en í aðdraganda þess hafði stjórn lagt til stefnuskjal sem unnið var upp úr fjölmörgum tillögum og líflegum umræðum sem mynduðust á vel heppnuðum fræðslu- og tengsladögum í mars þessa árs.

Á þinginu var stefnuskjalið lagt til umræðu og tekið til afgreiðslu en einnig var kosið í stjórn. Það markar tímamót í sögu samtakanna. Einnig var á þinginu kosið um fimm sæti í stjórn ásamt sæti þriggja varamanna.

ASÍ-UNG eru samtök ungs launafólks innan ASÍ. Samtökin eru vettvangur fyrir ungt fólk til að starfa saman þvert á félög. Hlutverkið er meðal annars að standa vörð um hagsmuni ungs launafólks gagnvart stjórnvöldum og öðrum samtökum auk þess að tryggja að sjónarmið ungs launafólks komi fram í stefnumótun og ákvarðanatöku aðildarfélaga ASÍ. Hlutverkið er einnig að fræða ungt launafólk um réttindi og skyldur vinnumarkaði og starfsemi stéttarfélaga.

Ástþór Jón Ragnheiðarson hefur verið í stjórn ASÍ-UNG frá árinu 2018 hlaut áframhaldandi brautargengi í stjórn. Hann var auk þess valinn til að gegna formennsku en það hefur hann gert frá því í fyrra. Hann segir í samtali við fagfélögin að samþykkt stefnu samtakanna marki nokkuð stóran áfanga í sögu þeirra, en samtökin ASÍ-UNG voru stofnuð 2011. „Hingað til höfum við látið nægja að taka afstöðu og álykta í ýmsum málum. Í fyrsta sinn höfum við nú markað okkur stefnu og það er mikilvægur áfangi.“ Hann segir aðspurður að ungt fólk á vinnumarkaði finni ekki síður fyrir þeim efnahagslegu þrengingum sem að landsmönnum steðji um þessar mundir. „Það þrengir að fólk alls staðar – ungt fólk er þar engin undantekning.“

Ástþór segir sérstaklega ánægjulegt að á fundinum hafi margir gefið kost á sér til stjórnarsetu. Því hafi þurft að kjósa á milli frambjóðenda. Það endurspegli aukinn áhuga á starfi ASÍ-UNG og sé bæði heilbrigt og lýðræðislegt.

Um var að ræða níunda þing ASÍ en undanfarin ár hefur þing verið haldið árlega. Ástþór segir að sennilega hafi þetta verið stærsta samtakanna frá upphafi – eða í það minnsta eitt það stærsta.

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í aðalstjórn:

  • Ásdís Helga Jóhannsdóttir frá Afli
  • Ástþór Jón Ragnheiðarson frá VLFS
  • Birgitta Ragnarsdóttir frá VR
  • Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir frá Einingu-Iðju
  • Þorvarður Bergmann Kjartansson frá VR

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í varastjórn:

  • Jennifer Schröder frá VR
  • Inga Fanney Rúnarsdóttir frá Verkalýðsfélagi Grindavíkur