Alþýðusamband Íslands stendur fyrir tveimur námskeiðum í þessari viku. Bæði námskeiðin eru kennd í Zoom og því aðgengileg öllum, óháð búsetu. Athugið að skráningum lýkur þriðjudaginn 26. september.

Vinnuréttur

Annars vegar er um að ræða námskeið um vinnurétt. Það fer fram miðvikudaginn 27. september milli klukkan 9 og 12.

Á þessu stutta og hnitmiðaða námskeiði fer Karen Ósk N. Björnsdóttir, lögfræðingur ASÍ um vinnurétt. Megináhersla er lögð á lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga og hvernig íslenskur vinnumarkaður er upp byggður. Lögð er áhersla á rétt launamanna t.d. til fæðingarorlofs, atvinnuleysistrygginga. Einnig er farið í ýmis þau réttindi í lögum og reglugerðum sem íslenskur vinnumarkaður byggir á. Námskeiðið er byggt á námskrá Trúnaðarmanna en á erindi við alla sem þurfa að þekkja vinnurétt og íslenskan vinnumarkað. Skráning fer fram hér.

Um skipulag og hlutverk ASÍ

Hins vegar er um að ræða námskeið sem ber yfirskriftina Um skipulag, hlutverk og meginverkefni ASÍ. Það fer fram á fimmtudag milli klukkan 9 og 11. 

Á þessu örnámskeiði mun Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur hjá ASÍ, fjalla um hlutverk og valdheimildir sambandsþings Alþýðusambandsins, formannafunda, miðstjórnar, forseta, varaforseta og skrifstofu ASÍ.

Æðsta vald í málefnum ASÍ er hjá þingi sambandsins sem haldið er annað hvert ár. Þar eru mótaðar helstu áherslur í stefnu og starfsemi sambandsins auk þess sem forysta þess er kosin, þ.e. forseti, varaforseti og fulltrúar í miðstjórn.

Milli þinga fer miðstjórn með málefni sambandsins. Formannafundir aðildarfélag innan ASÍ er síðan vettvangur stefnumótunar og samráðs þeirra milli sambandsþinga.

Fjallað verður um hvernig:

  • ákvarðanir eru teknar.
  • viðbrögð mótuð.
  • leyst úr ágreiningsmálum.
  • fylgst er með því að aðildarsamtökin ræki skyldur sínar skv. lögum sínum og lögum ASÍ.

Farið verður í kjarasamningsumboð ASÍ og þá aðstoð sem ASÍ veitir aðildarfélögum sínum við undirbúning og gerð kjarasamninga. Skráning fer fram hér.