Í fjórtánda sinn í röð kemst peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að sömu niðurstöðu; að hækka þurfi stýrivexti til þess að koma böndum á íslenskt efnahagslíf. Í fjórtánda sinn í röð er aukinni vaxtabyrði skellt á herðar íslenskra heimila, sem róa fjárhagslegan lífróður. Of langt er til hafnar.
Stýrivextir eru eftir tíðindi morgunsins komnir í 9,25 prósent og hafa ekki verið hærri síðan skömmu eftir bankahrunið. Ein afleiðing þessa er að íslensk heimili hafa neyðst á nýjan leik til að taka verðtryggð húsnæðislán í stórum stíl.
Meðalkaupverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári nemur rúmlega 75 milljónum króna. Sá sem fjármagnar kaupin með 70% lántöku til 25 ára greiðir tæplega 490 þúsund krónur á mánuði ef hann velur óverðtryggt lán. Til að geta tekið slíkt okurlán þyrfti kaupandinn að hafa 1,4 milljónir krónur í mánaðarlaun útborgað, miðað við 35% reglu Seðlabanka Íslands. Greiðslubyrðin yrði tæplega 250 þúsund krónur á mánuði ef hann velur verðtryggt lán.
Óheilbrigt efnahagsástand neyðir þannig íslensk heimili til að taka verðtryggð húsnæðislán, sem aftur eykur vægi verðtryggingar og afleiðingar verðbólgu á almenning. Ofangreindur lántakandi getur, miðað við 9 prósent ársverðbólgu, gert ráð fyrir að höfuðstóll lána hans hækki um fimm milljónir á árinu. Rjúfa þarf þennan vítahring tafarlaust.
Fjármagseigendur í skjóli
Á sama tíma og vextir á almenning og fyrirtæki eru ítrekað hækkaðir, til að skerða lífskjör almennings, eru eigendur fjármagnsins tryggðir á láði og legi. Ekki virðist mega hrófla við því lögmáli að raunvextir fjármagnseigenda séu jákvæðir, sama á hverju dynur. Gengdarlausar verðhækkanir banka og annarra stórfyrirtækja sem mala gull í krafti stöðu sinnar eru fyrir löngu orðnar óverjandi. Það er orðið fullreynt að höfða til samvisku þess hóps og hvetja til samfélagslegrar ábyrgðar. Önnur meðul þarf til. Það er til dæmis orðið tímabært stjórnvöld gangi fram með góðu fordæmi auk þess sem beita þarf vaxtakerfinu til að sporna við eyðslu þeirra sem vart vita aura sinna tal.
Stórir hópar í íslensku samfélagi standa frammi fyrir bráðum vanda vegna vaxtahækkana og verðhækkana á nauðsynjavöru. Afborganir lána þeirra hækka, verð á matvöru öðrum nauðsynjavörum hækkar upp úr öllu valdi og laun halda ekki í við verðskriðið. Til þessara hópa telst meðal annarra ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum, fyrstu kaupendur húsnæðis, barnafjölskyldur, milli- og lágtekjufólk auk þeirra hópa sem reiða sig á framfærslu frá hinu opinbera, heilsu sinnar eða aldurs vegna. Þetta ástand bitnar, eins og oftast áður, einkum á þeim sem illa geta varið sig.
Stjórnvöld geta ekki lengur skellt skollaeyrum við því ástandi sem skapað hefur verið. Peningastefna Seðlabanka Íslands hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Atlögu Seðlabanka Íslands að íslenskum heimilum þarf að linna. Tími breytinga er runninn upp.
Kristján Þórður Snæbjarnarson