20. Þing Rafiðnaðarsambands Íslands krefst þess að ríkisstjórn Íslands axli ábyrgð og bregðist strax við bráðum efnahagsvanda í samfélaginu. Núverandi ástand bitnar á öllu launafólki og skerðir lífsgæði þess verulega. Greiðsluvandi almennra heimila hefur raungerst. Ríkisstjórnin þarf strax að hlúa að þeim hópum sem höllustum fæti standa. Nýta þarf tilfærslukerfin til þess að styðja við ungt fólk, fólk á leigumarkaði, fólk sem nýverið hefur fjárfest í fasteignum og eru skuldsett.

Ljóst er að grípa þarf strax til raunverulegra aðgerða til að vinna gegn verðbólgu í stað þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til og hafa nánast eingöngu orðið til þess að auka verðbólguna. Gríðarleg hækkun vaxta lendir af fullum þunga á heimilum landsins á meðan fjármagnseigendur maka krókinn þar sem núverandi aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands hafa verið þeim í hag.

Það er með öllu ólíðandi að stjórnvöld sitji aðgerðarlaus hjá á meðan heimili landsins og launafólk, aldraðir og öryrkjar líða vegna áhrifa verðlags- og gjaldahækkana, hárrar verðbólgu og sífellt hækkandi vaxta. Við núverandi aðstæður þarf að sækja auknar tekjur í ríkissjóð til þeirra hópa sem hafa burði til eins og í formi hækkunar fjármagnstekjuskatts, auðlindagjalda og bankaskatts. Aðgerðarleysi mun óhjákvæmilega leiða til aukinnar ólgu og átaka á vinnumarkaði.